Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, dómsmálaráðherra segir haturstákn verði ekki liðin innan lögreglunnar. Hún lýsir þessu viðhorfi í færslu á Twitter.

„Það er alveg skýrt, haturstákn og sjónarmið verða ekki liðin innan lögreglunnar, ekki nú né framvegis. Ef við þurfum að auka menntun eða taka á því með einhverjum hætti sem yfirstjórn lögreglunnar telur rétt, þá gerum við það,“ segir í færslu dómsmálaráðherra.

Lögreglumönnum gert að fjarlægja öll merki

Mikil reiði blossaði upp á samfélagsmiðlum í gær, vegna merkja sem íslenskir lögreglumenn hafa sést bera, og þykja bera vott um kynþáttahatur og öfgaskoðanir.

Lögreglan brást hratt við umræðunni. Ásgeir Þór Ásgeirsson, yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu sagði í samtali við Fréttablaðið í gær að lögreglumönnum hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu verði gert að fjarlægja öll merki af öryggisvestum sínum.

Í tölvupósti frá Ásgeiri til lögreglumanna, sem Fréttablaðið hefur undir höndum, segir meðal annars:

Embættið er undir mikilli orrahríð vegna merkjaflóru sem sumir lögreglumenn hafa sett á varnar- og búnaðarvestin sín. Mynd sem fylgir frétt á mbl og aðrar sem embættið hefur fengið sendar eru sumar á jaðrinum að vera umdeildar eða hreinlega ósmekklegar. T.d er fáni þar sem eru grænir fletir utan um svartan kross merki nýnasista, ímynd lögreglu á ekki að vera tengd við „The Punisher“ – og svona gæti ég haldið áfram.

Héðan í frá er óheimilt að setja slíkar merkingar á og/eða bera á lögreglufatnaði – hvort sem það sést t.d. er vesti er upprennt eða ekki.