Jódís Skúladóttir, þingmaður Vinstri grænna og meðlimur í allsherjar og menntamálanefnd, óskaði eftir því í gærkvöldi að Jón Gunnarsson dómsmálaráðherra og Sigríður Björk Guðjónsdóttir ríkislögreglustjóri yrðu viðstödd fund nefndarinnar nú í morgun. Hvorki dómsmálaráðherra né ríkislögreglustjóri gátu orðið við því þar sem fyrirvari þótti of stuttu.
Óskað var eftir viðveru þeirra vegna brottvísunarmála írakskrar fjölskyldu en Fréttablaðið greindi frá því í gærkvöldi að lögregla hefði handtekið fimm manna íraska fjölskyldu sem vísa átti úr landi. Fjölskyldan sem færð var í gæsluvarðhald, inniheldur meðal annars tvær ungar konur sem handteknar voru þegar þær voru á leið í skólann og fatlaðan mann sem notast við hjólastól.
Jódís Skúladóttir segist ekki hafa vitað af aðgerðum lögreglu og átti því einnig erfitt með að leggja mat á það hvort aðgerðir hennar hefðu verið mannúðlegar.
„Mér var talsvert brugðið þegar ég sá þessar fréttir en ég held að það sé mikilvægast núna að þeim spurningum sem eðlilega vakna verði svarað og þessa vegna hef ég óskað eftir því að málið verði rætt strax hér á fundi allsherjar menntamálanefndar sem er að hefjast núna eftir nokkrar mínútur,“ sagði Jódís á leið sinni til fundarins
„Ég óskaði einnig eftir því að ráðherra kæmi á fundinn og það hefur verið kallað eftir því að ríkislögreglustjóri komi á fundinn,“ sagði hún en hvorugur aðili gat orðið við því.
Mörgum spurningum ósvarað
Jódís telur að ákveðnum spurningum sé ósvarað um það hvort málið hafi verið leitt til hlítar,
„Mér finnst það vera það mikilvægasta að hér eru ákveðnar leiðir sem fólk getur farið til þess að tæma málið og mér finnst spurningum ósvarað um það. Það er sérstaklega er varðar stöðu þessa fatlaða manns því að við erum jú alltaf að tala út frá því að horfa sérstaklega til fólks í viðkvæmri stöðu. Kvenna barna og fólks með fötlun og hinsegin fólks og víðara. Þetta tónar ekki alveg inn í það sem ég hef verið að tala fyrir hérna,“ sagði Jódís
Bryndís Haraldsdóttir formaður allsherjar og menntamálanefndar hafði heldur ekki verið upplýst um aðgerðir lögreglu og sagði að hún ætti erfitt með að leggja mat á það hvort aðgerðir lögreglu væru mannúðlegar.
„Því miður þá hef ég ekki náð að fylgjast nægilega mikið með fréttum svo ég hef ekki séð þetta myndefni frá þessu en það er auðvitað þannig að lögin eru svoleiðis að ef að viðkomandi fær ekki vernd á Íslandi samkvæmt lögum og samkvæmt úrskurðum Útlendingastofnunar og svo kærunefndinni þá ber fólki að yfirgefa landið,“ sagði Bryndís.
Aðspurð um það hvort Jón Gunnarsson dómsmálaráðherra og ríkislögreglustjóri yrðu viðstödd á fundinum sagði hún að svo yrði ekki.
„Jódís Skúladóttir hefur óskað eftir því að fá ráðherra og það hefur líka komið ósk um að fá ríkislögreglustjóra og við munum fá þau til fundar við okkur strax í næstu viku. Því miður var ekki hægt að verða við því í dag en við munum óska eftir frekari upplýsingum um það hvernig að þessu máli var staðið,“ sagði Bryndís.