Ás­laug Arna Sigur­björns­dóttir dóms­mála­ráð­herra hefur lagt til við Ólaf Helga Kjartans­son, lög­reglu­stjóra á Suður­nesjum, að hann hætti störfum sem lög­reglu­stjóri. Kvartanir vegna framgöngu Ólafs í garð tveggja starfsmanna eru á borði ráðherra. Þetta hefur RÚV eftir heimildar­mönnum. Ólafur Helgi hefur ekki orðið við til­lögu ráð­herrans.

Embættið logar í illdeilum en Ólafur sjálfur hefur einnig tekið við kvörtunum vegna meints eineltis af hálfu annarra yfirmanna embættisins.

Í veikindaleyfi án þess að láta vita

Eins og Frétta­blaðið greindi frá hafa þrír yfir­menn hjá em­bættinu verið í um mánaðar­löngu veikinda­leyfi vegna sam­skipta­örðug­leika. Um er að ræða að­­stoðar­sak­­sóknara, mann­auðs­­stjóra og yfir­­lög­­fræðing em­bættisins.

Tveir starfs­menn lög­reglunnar kvörtuðu til Ólafs Helga vegna meints ein­eltis af hálfu Öldu Hrannar Jóhanns­dóttur yfir­lög­fræðings og Helga Þ. Kristjáns­sonar mann­auðs­stjóra í byrjun júní.

Sam­­kvæmt heimildum fóru Alda Hrönn og Helgi í veikinda­­leyfi, tveimur dögum eftir að kvartað var til fagráðs, án þess að til­­kynna lög­­reglu­­stjóranum um það. Hann komst að því í sjálf­­virkum svörum frá net­­föngum þeirra. Trúnaðar­­læknir óskaði eftir vott­orðum frá Öldu Hrönn og Helga um miðjan júlí, sem þau skiluðu aftur­­­virkt.

Dóms­mála­ráðu­neytið fékk þá ráð­gjafa­fyrir­tækið Attentus til að taka út em­bættið og var skýrslu þess skilað til dóms­mála­ráð­herra í júlí. Nú hefur dóms­mála­ráð­herra óskað eftir því að Ólafur Helgi hætti störfum sem lög­reglu­stjóri á Suður­nesjum.