David Wolfson, dómsmálaráðherra Bretlands, hefur sagt af sér embætti í kjölfar sektar sem Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands, fékk eftir að hafa brotið sóttvarnareglur sem voru settar vegna Covid-19 faraldursins. Hann greinir frá þessu á Twitter síðu sinni.

Boris Johnson fékk í fyrradag 50 sterlingspunda sekt, um 8.500 krónur, fyrir að hafa mætt í veislur á meðan sam­komu­tak­markanir voru í gildi í Bret­landi.

Hann er fyrsti ráðherrann í ríkisstjórn Boris Johnson sem segir af sér eftir að Johnson fékk sektina. Wolfson sagði gjörðir forsætisráðherrans ekki vera í samræmi við lög og reglur.

Wolfson sagði það vera rangt fyrir slíkt framferði að komast upp án þess að hljóta refsingu, sérstaklega þar sem margir einstaklingar fylgdu reglunum fyrir mikinn persónulegan kostnað. Aðrir einstaklingar hafi fengið sektir eða verið dæmdir fyrir brot á sóttvarnarreglum.

Wolfson, sem er er meðlimur Íhaldsflokksins, sagðist ekki hafa neinn annan valmöguleika nema að segja af sér.

Í umfjöllun Breska miðilsins The Guardian um málið segir að afsögn Wolfson muni vekja upp spurningar um forystu Johnson. Afsögn hans kemur nefnilega klukkustundum eftir að Nigel Mills, þingmaður Íhaldsflokksins, gaf út að hann ætlaði að leggja fram vantrauststillögu á Boris Johnson.

Í bréfi sem Johnson sendi Wolfson þakkar hann fyrir störf dómsmálaráðherrans og segist vera hryggur yfir afsögn hans.