Matsmenn í bótamáli á hendur Arngrími Jóhannssyni og Sjóvá segja blöndungsísingu hafa leitt til þess að flugvél Arngríms brotlenti. Dóttir Kanadamanns sem lést í slysinu kveðst sannfærð um að koma hefði mátt í veg fyrir það. Aðalmeðferð í bótamálinu er áætluð í október, rúmum sex árum eftir að vélin fórst.

„Sá langi tími sem málið hefur tekið hefur komið í veg fyrir að við fjölskyldan getum haldið áfram með líf okkar,“ segir Sarah Wagstaff, sem rekur dómsmál gegn Arngrími Jóhannssyni flugstjóra vegna andláts föður hennar í flugslysi með Arngrími.

Arngrímur brotlenti ferjuflugvél sinni í Barkárdal í Eyjafirði í ágúst 2015 og var þá á leið frá Akureyri til Keflavíkur. Með um borð var Kanadamaðurinn Grant Wagstaff sem Arngrímur hafði ráðið til að flytja vélina með sér vestur um haf og koma í hendur á nýjum eiganda. Við brotlendinguna kom upp eldur. Arngrímur náði að komast út úr vélinni en Grant lést.

Flakið fannst meira en átta klukkutímum eftir að hún lagði upp frá Akureyri.

Sarah Wagstaff höfðaði mál í nóvember 2019 gegn Arngrími og tryggingafélagi hans Sjóvá og krafðist bóta fyrir föður sinn. Það sama hafði Roslyn, ekkja Grants, gert áður fyrir sitt leyti og síðar yngri börn hennar tvö, Claire og Tyler. Samtals eru því rekin fjögur samhljóma dómsmál. Ekkjan er með einn lögmann en börnin þrjú leituðu annað og eru öll með sama lögmanninn.

Fyrirtaka var í málunum fjórum í Héraðsdómi Reykjavíkur í gær. Þar var ákveðið að aðalmeðferð þess færi fram í október, eftir fimm mánuði. Lögð hefur verið fram matsgerð tveggja sérfróðra matsmanna með svörum við tilteknum spurningum sem lögmenn málsaðilanna lögðu fyrir þá.

Meginniðurstaða matsmannanna er sú að orsök þess að flugvélin hrapaði hafi verið ísing í blöndungi. Þá hafna þeir þeirri niðurstöðu rannsóknarnefndar flugslysa að flugvélin hafi verið ofhlaðin og að ekki hafi verið skilyrði til sjónflugs þegar Arngrímur freistaði þess að fljúga upp yfir Tröllaskaga neðan úr Barkárdal eftir að hafa reynt fyrir sér í Öxnadal og Hörgárdal. Taldi rannsóknarnefndin mannlega þætti hafa átt þátt í slysinu auk blöndungsísingar.

Andstætt rannsóknarnefndinni telja matsmennirnir ekki hægt að skilgreina Grant Wagstaff sem flugmann um borð, eða Pilot Not Flying. Slíka skilgreiningu lagði Sjóvá einmitt til grundvallar þeirri ákvörðun fyrir þremur árum að greiða ekki bætur til fjölskyldu Grants þar sem tryggingin fyrir flugvélina hefði aðeins gert ráð fyrir einum flugmanni og síðan farþegum ef þeim væri til að dreifa.

Sarah Wagstaff

„Ég er sannfærð um að koma hefði mátt í veg fyrir lát föður míns og að ákvarðanir og geta Arngríms til að hafa stjórn á fluginu við þessar fyrirsjáanlegu veðuraðstæður hafi á endanum leitt til þess að faðir minn lést,“ segir Sarah.

Þá segist Sarah telja að Sjóvá hafi ranglega og á ósanngjarnan hátt skýlt sér á bak við þá skilgreiningu að faðir hennar hafi verið flugmaður um borð í vélinni þennan dag og þannig komið sér undan að taka á sig nokkra fjárhagslega ábyrgð.

„Við vonumst til þess að á næstu mánuðum geti dómarar á Íslandi komið til leiðar einhvers konar réttlæti fyrir fjölskyldu mína og vegna andláts föður míns þannig að við getum lagt málið að baki okkur,“ segir Sarah Wagstaff.

Áður en til aðalmeðferðar kemur í haust þarf að finna sérfróðan meðdómara sem sest þá í dóminn ásamt tveimur héraðsdómurum.