Dómari í Los Angeles hefur hafnað kröfu tónlistarrisanna Universal og Warner um að Jóhann Helgason greiði 323 þúsund dollara málskostnað þeirra í lagastuldarmálinu um lögin Söknuð og You Raise Me Up.

„Þetta er ákveðinn léttir og nú getum við einbeitt okkur að áfrýjuninni,“ segir Jóhann. Miðað við fyrri úrskurði hafi dómarinn komið á óvart og séð að sér, í ljósi gagna sem lögmaður hans hafi getað sent inn síðan málinu var vísað frá.

Dómarinn sagði að þrátt fyrir að hann hafi vísað málinu frá, að kröfu Warner og Universal, gæti Jóhann ekki talist hafa stefnt í vondri trú. Málinu hafi verið vísað frá vegna þess að lögmenn andstæðinga hans hafi sýnt fram á að bæði Söknuður og You Raise Me Up, byggðu á írska þjóðlaginu Danny Boy og þess að tónlistarsérfræðingur Jóhanns hafi að sama skapi litið fram hjá því að skoða þann þátt ofan í kjölinn.

„Hvorki var málsóknin í vondri trú né getur dómurinn komist að þeirri niðurstöðu að hún hafi verið tilhæfulaus,“ segir dómarinn.

Jóhann freistar þess nú fyrir áfrýjunardómstóli að fá ákvörðun dómarans um að vísa málinu frá, hnekkt. Þar ganga hlutir hægt fyrir sig og mun lögmaður Jóhanns hafa búið hann undir að málið teygi sig þar að minnsta kosti fram á árið 2022. Jóhann segir gagnrýni dómarans á vinnu tónlistarsérfræðings óverðskuldaða.

„Nú getum við notað tímann til að byggja undir áfrýjunina og koma einhverju fyrir augu og eyru dómaranna sem sannfærir þá um gildi þessa máls. Vonandi verða að minnsta kosti tveir af þremur dómurum okkur hliðhollir,“ segir hann.

Warner og Universal hafa ekki tækifæri til að áfrýja niðurstöðunni varðandi málskostnaðinn, þannig að Jóhann er því sloppinn fyrir horn hvað þá kröfu snertir. Krafan hljóðaði upp á jafnvirði 45 milljóna króna á gengi dagsins. Málskostnaður Jóhanns heldur hins vegar áfram að hlaðast, eftir því sem málinu vindur fram.

„Það sést glöggt af þessari kröfu þeirra hversu dýrt það getur verið að leita réttar síns,“ bendir Jóhann á. Sjálfur hafi hann meðal annars eytt höfundarréttarlaunum sínum nokkur ár fram í tímann til að standa straum af kostnaðinum.

Jóhann kveðst afar þakklátur tónlistarmönnunum Eyþóri Gunnarssyni, Björgvini Halldórssyni og Jakobi Magnússyni og fleirum fyrir stuðning að undanförnu, til dæmis með hugmyndum um að halda styrktartónleika auk þess að koma málinu á framfæri með ýmsum hætti.

„Slíkir tónleikar myndu auðvitað hjálpa mér mjög mikið.“ segir Jóhann Helgason.