Arnar Þór Jónsson, dómari við Héraðsdóm Reykjavíkur, skrifar grein á vef Fréttablaðsins í dag og svarar gagnrýni sem að honum var beint í grein Sveins Andra Sveinssonar hæstaréttarlögmanns sem birtist í Fréttablaðinu síðastliðinn fimmtudag.

„Sem dómari hef ég unnið drengskaparheit að stjórnarskrá lýðveldisins. Á þeim grundvelli – og innan þess ramma – tel ég raunar að ég hafi ekki aðeins rétt, sem borgari þessa lands, til að tjá mig um sýn mína á stöðu mála, heldur beina skyldu.“ Þetta segir Arnar Þór Jónsson héraðsdómari í grein á vef Fréttablaðsins í dag.

Greinin er svar við grein Sveins Andra Sveinssonar hæstaréttarlögmanns sem birtist í Fréttablaðinu á fimmtudaginn. Í greininni fjallaði Sveinn Andri um traust til dómstóla. Þar skipti tveir þættir máli, annars vegar hvernig skipað er í embætti dómara og hins vegar orð og athafnir dómaranna sjálfra.

Tekur Sveinn Andri dómarann Arnar Þór sem dæmi. Hann hafi sent frá sér fjölmargar greinar um þjóðfélagsmál, meðal annars um Evrópumál og rifjar Sveinn Andri upp að Landsréttur hafi nýverið tekið fyrir og hafnað kröfu um að Arnar Þór viki sæti sem dómari í dómsmáli á sviði Evrópuréttar.

„Í ljósi mikilvægis þess að almenningur eigi ekki að þurfa að draga í efa óhlutdrægni dómara og traust ríki í garð dómstóla, er vegur dómara inn á ritvöllinn vandrataður,“ segir í grein Sveins Andra. Aðili dómsmáls gæti litið svo á að hann njóti ekki sannmælis hjá dómara sem hafi tjáð sig opinberlega um pólitísk mál tengd úrlausnarefninu. „Þá er farið að molna undan traustinu,“ segir í grein Sveins.

Arnar Þór vísar þessu á bug í grein sinni. Þótt það séu engar fréttir að dómurum beri að stíga varlega til jarðar í opinberri umræðu fylgi dómsvaldi rík ábyrgð „sem birtist ekki síst í þátttöku dómara í umræðu um málefni sem varða heill réttarkerfisins, réttarríkisins, lýðræðis, valdtemprunar og fleira,“ segir Arnar Þór í grein sinni.