Bandarískur alríkisdómari lýsti því yfir í dag að Donald Trump hefði „líklegar en ekki“ gerst sekur um að reyna að hindra störf Bandaríkjaþings á ólögmætan hátt með tilraunum sínum til að koma í veg fyrir staðfestingu á niðurstöðum forsetakosninganna árið 2020.

„Í ljósi fyrirliggjandi gagna hefur dómstóllinn komist að þeirri niðurstöðu að líklegra sé en ekki að Trump forseti hafi á spilltan máta reynt að hindra störf sameiginlegs þingfundar Bandaríkjaþings þann 6. janúar 2021,“ skrifaði dómarinn David Carter, sem á sæti við alríkisdómstól í Kaliforníu. Eins og kunnt er réðust stuðningsmenn Trumps á Bandaríkjaþings á þessum degi til að koma í veg fyrir að þingið staðfesti sigur Joe Biden í forsetakosningunum árið áður.

Niðurstaða Carters var í tengslum við úrskurð þar sem hann veitti rannsóknarnefnd Bandaríkjaþings um árásina heimild til að skoða 101 tölvupósta milli Trumps og lögfræðingsins Johns Eastman. Með úrskurðinum hafnaði dómstóllinn röksemdum Trumps og Eastmans um að samskipti þeirra nytu verndar í ljósi trúnaðar milli lögfræðings og skjólstæðings. Að mati Carters voru hugmyndir Eastmans um að hindra staðfestingu á niðurstöðu kosninganna „augljóslega ólöglegar“ og Trump hefði mátt vera það ljóst. Hugmyndir Eastmans gengu út á að Mike Pence varaforseti, sem stýrði sameiginlegum þingfundi þar sem atkvæðatalningin var staðfest, hefði einfaldlega getað lýst því yfir að niðurstaða kosninganna væri lagalega umdeild og hefði þá getað falið ríkisþingum þar sem Repúblikanar hafa meirihluta að velja nýja kjörmenn í stað þeirra sem Biden vann. Þessar fyrirætlanir féllu um sjálfa sig þar sem Pence taldi þetta ekki standast lögbundið hlutverk hans og neitaði að fara eftir þessu.

Hugmyndir Eastmans byggðu á þeirri hugmynd að lög um talningu atkvæða frá árinu 1887 standist ekki stjórnarskrá Bandaríkjanna og að Pence væri því heimilt að hunsa tiltekin ákvæði þeirra. Þetta taldi Carter ekki standast og benti á að jafnvel þótt þessi lög væru í andstöðu við stjórnarskrá veitti það Trump ekki rétt til að hunsa þau að vild, heldur væri það undir Hæstarétti komið að dæma þau ógild. Trump höfðaði fjölda mála eftir kosningarnar 2020 en tapaði flestum og mörgum þeirra var vísað frá dómi.

Carter taldi herferð Trumps og Eastmans til að hnekkja kosningunum 2020 fordæmalausa í sögu Bandaríkjanna og kallaði hana „valdarán í leit að lögfræðikenningu.“ Enn er ekki loku fyrir það skotið að Eastman áfrýi úrskurðinum, en aðeins eitt dómsstig er á milli Carters og Hæstaréttar.