Lárentsínus Kristjánsson dómari fer yfir kröfugerð sóttvarnalæknis milli 13 og 14 í dag vegna einstaklinga sem telja brotið á sér með vistun á sóttvarnarhúsi.

Að minnsta kosti þrír hafa lagt fram kröfu um að vera látnir lausir af sóttkvíarhótelinu svokallaða við Þórunnartún en að sögn RÚV verða mál tveggja gesta tekin fyrir í dag.

Fyrstu gestirnir mættu í sóttkvíarhótelið þann 1. apríl og hafa því verið inni í lokuðu herbergi í þrjár nætur. Nokkrir hafa reynt að yfirgefa hótelið en verið stöðvaðir af lögreglu.

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir ræddi í gær við dómara, lögmenn og heilbrigðisráðuneytið vegna einstaklinga sem stefna íslenska ríkinu fyrir frelsissviptingu.

Sóttvarnalæknir sagði í samtali við Fréttablaðið í gær að spurningar um hvort löglega sé staðið að hlutum og hvort reglugerðir standist stjórnarskrá komi ítrekað upp, bæði í kjölfar íþyngjandi aðgerða og afléttinga. Hann segir það að skylda alla að fara í sóttvarnarhótel sé sannarlega óvenjulega mikil aðgerð en nauðsynlega til halda faraldrinum í skefjum nú þegar breska afbrigðið, sem er talsvert meira smitandi en önnur afbrigði veirunnar, er á dreifingu um samfélagið.