Í nýföllnum dómi Héraðsdóms Reykjavíkur í Rauðagerðismálinu gerir dómarinn, Guðjón St. Marteinsson, athugasemd við skýrslu lögreglu í gögnum málsins þar sem fram koma 'kenningar lögreglu' í málinu. Telur dómari skýrsluna ámælisverða og andstæða hlutlægnisskyldu lögreglu.

Skjalið ber heitið Samantekt rannsóknardeildar um rannsókn málsins. Í dóminum segir að þess sé hvergi getið á hvaða forsendum skjalið sé ritað en við aðalmeðferðina hafi ákæruvaldið lýst því að það væri ritað á grundvelli 1. mgr. 56. gr. sakamálalaga.

Í þeirri grein segir að lögregla taki saman skýrslu um rannsókn sína í hverju máli um sig þar sem getið skal einstakra rannsóknaraðgerða og niðurstöðu þeirra. Eftir því sem við á skuli þar á meðal koma fram það sem sakborningur og vitni bera við skýrslutöku, athugun lögreglu sjálfrar og niðurstaða skoðunar og rannsóknar sérfróðra manna.

Svo segir í hinum nýfallna dómi:

„Það er meginregla sakamálalaga að rannsakendum og ákærendum sé skylt að gæta hlutlægni og að vinna að því að hið sanna komi í ljós og gæta jafnt að þeim atriðum sem horfa til sýknu og sektar. [...] taka ber mið af þessari grundvallarreglu við gerð skýrslu skv. 1. mgr. 56. gr. laganna. Undir aðalmeðferð málsins fengust hvorki svör né skýringar á vinnu við gerð skýrslunnar.“

Dómari slær því svo föstu að skýrslan sé ekki í samræmdi við fyrrgreint ákvæði.

„Í skýrslunni er m.a. að finna kafla sem ber heitið kenningar lögreglu og niðurlag. Þar er sett fram kenning, óháð framburði sakborninga, eins og segir. Þá er í niðurlaginu umfjöllun um skilyrði samverknaðar. Að mati dómsins hefur lögreglan við gerð skýrslunnar ekki gætt meginreglunnar um hlutlægnisskyldu lögreglunnar og sem henni bar að gera og er það ámælisvert,“ segir í dóminum.

Í viðtali við Fréttablaðið eftir dómsuppkvaðningu í morgun gerði Geir Gestsson, verjandi Murat Selivrda, þessa skýrslu að sérstöku umtalsefni. Hann sagðist ekki hissa að sinna skjólstæðingur hafi verið sýknaður. Lögregla hafi stórlega ýkt hlut hans í málinu. Það sjáist ekki síst í umræddri skýrslu.

Murat beið fyrir utan dómsalinn í morgun og gekk ánægður þaðan út eftir dómsuppkvaðningu.
Fréttablaðið / Anton Brink

Verjendur rifu skýrsluna í sig

Verjendur dvöldu lengi við umrædda skýrslu við aðalmeðferð málsins og spurðu lögreglumanninn sem hana ritaði ítarlega um hana. Dómarinn blandaði sér sjálfur í umfjöllun um skýrsluna og ljóst varð þá þegar að hann virtist hafa ýmislegt við hana að athuga. 

Verjandi Angjelin sagði ýmis­legt á­huga­vert að finna í skýrslunni, til að mynda um sam­verknað og annað, þrátt fyrir að höfundurinn væri ekki lög­fræði­menntaður. Þá vísaði hann til þess að í skýrslunni segi að lög­regla trúi ekki sak­borningum og að þeir hljóti að vita eitt­hvað.

„Er venjan að skrifa svona skýrslu við rann­sókn máls á rann­sóknar­stigi?“ spurði verjandi Angjelin og svaraði lög­reglu­maðurinn því að um væri að ræða greinagerð lög­reglu, saman­tekt á málinu með því sem lög­regla telur að hafa gerst. Verjandi benti þó á að í skýrslunni væri að finna ýmsar á­lyktanir og því ekki hægt að segja að að­eins hafi verið um saman­tekt að ræða.

„Sumt af þessu er skoðun á því hvað sak­borningarnir eru að segja, hvort það sé rétt eða rangt,“ sagði verjandi Angjelin. „Þetta er mat lög­reglu að við teljum að svona hafi þetta verið, þannig við drögum þá á­lyktun,“ svaraði lögrelgumaðurinn.

Tóku ekki mið af framburði sakborninga

Því næst tók verjandi Murat Selvirada til máls og benti á að í skýrslunni væri að finna á­lyktun um að Murat hafi sýnt Claudiu Sofiu Coelho Carvahlo, bíla­stæði við Brautar­holt þar sem hann hafi sagt henni hvaða bíl hún ætti að fylgjast með. Þá hafi hann sagt henni að senda Angjelin skila­boðin „Hey sexy“ í síma Shpetim ef bíllinn myndi hreyfast.

Verjandinn benti á að við skýrslu­töku hjá lög­reglu þann 23. mars hafi Claudia leið­rétt fram­burð sinn um að fyrir­mælin um skila­boðin hafi komið frá Murat, hið rétta væri að þau hafi komið frá Angjelin sjálfum. Þrátt fyrir að skýrslan hafi verið dag­sett 30. apríl hafi ekki verið minnst á leið­réttinguna frá því í mars.

„Vissir þú af þessum fram­burði Claudiu og á­kvaðst að taka ekki mark á honum?“ spurði verjandi Murat. Löng bið var á máli lög­reglu­mannsins sem sagðist síðan ekki vera með neitt svar. Þá vísaði verjandinn til þess að þann 20. mars hafi Angjelin sjálfur sagst hafa beðið Claudiu um að senda sér um­rædd skila­boð, ekki Murat.

Dómarinn í málinu endur­tók spurninguna eftir beiðni lög­reglu­mannsins og hvort það hafi komið til greina að taka mið af fram­burði þeirra Claudiu og Angjelin. Aftur sagðist lög­reglu­maðurinn ekki vera með neitt svar. „Er bara í boði að svara ekki spurningum?“ spurði þá verjandi Angjelin

„Er það alveg venju­legt að lög­regla láti kafla inn í svona skýrslu sem heitir bara kenningar lög­reglu og niður­lag ... Þetta kom fram í skýrslu lög­reglu sem er saman­tekt á rann­sóknar­að­gerðum, er þetta venju­legt?“ spurð verjandi Murat. „Það er venju­legt að skrifa greinar­gerð í lok máls,“ svaraði þá lög­reglu­maðurinn.

Verjendur Angjelin, Claudiu, Shpetim og Murat voru síður en svo ánægðir með „kenningar“ lögreglu.
Fréttablaðið/Anton Brink

Fullyrt að menn hafi gerst sekir um manndráp

Verjandi Claudiu tók næst til máls. „Í þessari greinar­gerð, sem ég kalla mál­flutning, stendur við niður­lag lög­reglu að Claudia hefði mátt gera sér grein fyrir að eitt­hvað stæði til þetta kvöld og því bæri að á­kæra hana. Telur lög­regla þetta sönnun þess að ein­hver hafi gerst sekur um mann­dráp?“ spurði verjandinn.

Við þetta greip dómarinn inn í og vísaði til þess að mikið hafi verið talað um ann­marka á skýrslunni.

„Hún segir að þetta séu til­gátur og kenningar lög­reglu, það er nú bara mjög víða í þessu full­yrt eins og þetta séu stað­reyndir, að hitt og þetta hafi gerst, gerir ekki greinar­mun hve­nær sagt er áður en að setning hefst, talið er, er í lagi að segja bara svona og leggja fyrir dóm að þetta og hitt hafi gerst, sem er full­kom­lega ó­satt, að mati lög­reglu?“ spurð verjandi Claudiu á­fram.

Kvaðst lög­reglu­maðurinn þá hafa dottið út og spurði verjandinn aftur hvort það væri í lagi að lög­regla full­yrði um að menn hafi gerst sekir um mann­dráp áður en málið hefur farið til dóm­stóla. Sagði hún það vera mat þeirra sem stóðu að málinu. Að­spurð um hluta þar sem segir að sak­borningarnir „hafi öll haft sínu hlut­verki að gegna í mann­drápinu,“ sagði hún það einnig vera mat lög­reglu.

Claudia þegar hún sat í dómsalnum við aðalmeðferð.
Fréttablaðið/Anton Brink

Litið fram hjá framburði og fabúlerað um annað

Eftir inn­skot frá vara­héraðs­sak­sóknara spurði dómarinn hvaða laga­grund­velli skýrslan byggi á og sagði úti­lokað að farið hafi verið eftir þeim lögum við gerð skýrslunnar. Um var að ræða 56. grein laga um með­ferð saka­mála.

„Nú stendur hérna neðar­lega á blað­síðu 67: Kenning lög­reglu óháð fram­burði sak­borninga er þessi... Grund­vallar­at­riði er náttúru­lega fram­burður sak­borninga og ef að þetta á að vera með 56. gein að segja, það er bara litið fram hjá fram­burði sak­borninga og fabúlerað eitt­hvað allt annað upp úr gögnunum,“ sagði dómarinn.

„Það alla vega leikur veru­legur vafi á því þarna hvort lög­regla hafi gegnt hlut­leysis­skyldu sinni.“