Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir hefur boðað kröfugerð til Héraðsdóms Reykjavíkur í kvöld. Þetta segir Lárentsínus Kristjánsson dómari í samtali við RÚV. Að minnsta kosti þrír hafa lagt fram kröfu um að vera látnir lausir af sóttkvíarhótelinu við Þórunnartún.
Lárentsínus segir að hann muni endurmeta stöðuna eftir að sóttvarnalæknir hefur skilað inn kröfugerðinni ef ekkert gerist í millitíðinni. Öll málin verða væntanlega flutt í einu og má síðan búast fastlega við því að annar hvor málsaðili áfrýi því til Landsréttar í kjölfarið.
Óljóst hvor dómstóllinn eigi að sjá um málið
Einhver áhöld virðast nú um hvernig halda ber á málinu en eins og Fréttablaðið fjallaði um í gær kveða sóttvarnalög á um að það sé sóttvarnalæknir eða löglærður fulltrúi landlæknis sem ber lögmæti frelsissviptingar í sóttvarnaskyni undir dóm en ekki einstaklingur sem er ósáttur við þá frelsissviptingu.
Ómar R. Valdimarsson, lögmaður, greindi Fréttablaðinu frá því í gær að hann hefði sent kröfu til Héraðsdóms Reykjavíkur fyrir hönd skjólstæðings síns sem dvelur gegn vilja sínum á sóttvarnahóteli á grundvelli reglugerðar heilbrigðisráðherra. Það er ekki í samræmi við fyrirmæli sóttvarnalaga en samkvæmt þeim er það sóttvarnalæknir sem setur fram skriflega kröfu um staðfestingu á gildi slíkrar ákvörðunar, hafi henni verið mótmælt.
Þá skal fyrrnefnd krafa sóttvarnalæknis afhent dómstjóra héraðsdóms í þinghá þar sem málsaðili dvelst þegar ákvörðun er tekin. Þar sem sú ákvörðun sem um ræðir í þessu tilviki var tekin í Leifsstöð, telja lögmenn sem Fréttablaðið hefur rætt við að afhenda eigi kröfuna dómstjóra Héraðsdóms Reykjaness en ekki Reykjavíkur.