Ekkert verður af málflutningi í máli tónlistarmannsins Jóhanns Helgasonar í Los Angeles í Bandaríkjunum þar sem tekist er á um hvort hann þurfi að greiða málskostnað mótaðila sinna í lagastuldarmálinu um Söknuð.

Málflutningurinn átti að vera í dag. Til stóð að lögmenn beggja aðila mættu í dómsal til að rökstyðja sjónarmið sín í málinu. Dómarinn gaf hins vegar óvænt út í fyrradag að hann þyrfti ekki á slíku að halda til að úrskurða í málinu.

Sami dómari vísaði í apríl máli Jóhanns frá dómi og bíður áfrýjun á þeirri ákvörðun meðferðar hjá sérstökum áfrýjunardómstóli.

Í millitíðinni hafa lögmenn tónlistarfyrirtækjanna sem Jóhann stefndi, auk höfunda lagsins You Raise Me Up, farið fram á að hann greiði lögmannskostnað þeirra upp á jafnvirði 48 milljóna króna. Þeirri kröfu lýsti lögmaður Jóhanns sem svívirðilegri í greinargerð til dómsins.