Arn­ar Þór Jóns­son, dóm­ari við Héraðsdóm Reykja­vík­ur, hyggst gefa kost á sér í próf­kjöri Sjálf­stæðis­flokks­ins í júní.“ Þetta staðfestir hann við Morgunblaðið og segir þar að hann hafi tekið ákvörðunin eftir mikla íhugun og hvatningu frá fjölda fólks.

Ekki eru dæmi um sambærilega þátttöku dómara í stjórnmálastarfi í seinni tíð en Gunnar Thoroddsen, prófessor í lögum, snéri aftur í stjórnmál árið 1970 eftir að hafa tekið við embætti hæstaréttardómara.

Gunnar Thoroddsen sagði af sér dómaraembætti í aðdraganda prófkjörs sjálfstæðismanna árið 1970.
Fréttablaðið/GVA.

,,Ég tel að þátttaka í prófkjöri samrýmist ekki stöðu hæstaréttardómara og mun segja af mér embætti áður en prófkjör hefst," sagði Gunnar í um framboð sitt í samtali við Morgunblaðið 23. september 1970.

Ekki kemur fram í frétt Morgunblaðsins hvort Arnar Þór hyggst segja af sér dómaraembætti vegna framboðsins.

,,Ég tel að þátttaka í prófkjöri samrýmist ekki stöðu hæstaréttardómara og mun segja af mér embætti áður en prófkjör hefst."

Sagði sig úr Dómarafélaginu

Arnar Þór hefur skrifað mikið um þjóðfélagsmál, ekki síst um Evrópumál og vakti mikla athygli fyrir einarða afstöðu sína gegn þriðja orkupakkanum.

Fréttablaðið greindi frá því fyrir skömmu að hann hefði sagt sig úr Dómarafélagi Íslands vegna ágreinings um siðareglur Dómarafélagins.

Arnar Þór sagði sig úr félaginu eftir fund um tjáningarfrelsi dómara sem hann upplifði að beint væri gegn sér persónulega.

Hann hafði áður gagnrýnt ákvæði siðareglnanna sem mælir gegn því að dómarar taki þátt í félögum þar sem leynd hvílir yfir siðareglum, félagatali eða starfsemi félags, en með með umræddu ákvæði er spornað gegn aðild dómara í félögum á borð við Frímúrararegluna. Í sama ákvæði siðaregnanna er mælt gegn opinberri þátttöku í stjórnmálastarfi.