Mennirnir tveir, Ísidór Nathansson sem er 24 ára og Sindri Snær Birgisson sem er 26 ára, sem eru grunaðir eru í hryðjuverkamálinu svokallaða neituðu sök hvað varðar ákæruliði sem varða skipulagningu hryðjuverka við þingfestingu málsins í dag. Hins vegar játuðu og neituðu þeir því að hafa framið vopnalagabrot, til dæmis fyrir að framleiðslu, notkun, afhendingu og sölu skotvopna. Og annar þeirra játaði fíkniefnalagabrot sem honum er gefið að sök.
Sveinn Andri Sveinsson, lögmaður annars mannsins, sagði ekki ákveðið hvort krafist yrði frávísunnar í málinu, en það gæti vel gerst. Dómari hefur þó til athugunar að vísa þeim ákærum sem varða hryðjuverk frá dómi.
Sveinn Andri Sveinsson, hefur gagnrýnt að þessi meintu hryðjuverk séu ótilgreind í ákærunni. Annar maðurinn er ákærður fyrir tilraun til hryðjuverka og hinn fyrir hlutdeild að þeim.
„Það var verið að taka afstöðu til ákærunnar en að öðru leyti ákvað dómarinn að hafa frumkvæði að því hvort það væri eitthvað í ákærunni sem varðar frávísun,“ segir Sveinn Andri Sveinsson lögmaður Sindra Freys í samtali við Fréttablaðið að lokinni þingfestingu.
Spurður hvort að umbjóðandi hans aðhyllist öfgafullar stefnur eða hafi öfgafullar skoðanir eins og fullyrt hefur verið í dómsskjölum segir Sveinn Andri hann alls ekki aðhyllast neitt slíkt.
Í dómsskjölum málsins hefur komið fram að mennirnir hafi sín á milli talað um að „keyra trukk í gegnum hóp fólks“ og drónaárásir. Auk þess hafi Europol metið mennina þannig að báðir þeirra hefðu verið við það að grípa til aðgerða og framkvæma hryðjuverk á Íslandi.
Þrátt fyrir það var mönnunum sleppt úr margra vikna gæsluvarðhaldi í desember. Í kjölfarið hækkaði lögregla viðbúnaðarstig sitt.
Við þingfestingu sagði Sveinn Andri mikilvægt að Signal-samskipti mannana yrðu lögð fram, en þau skipta sautjánhundruð blaðsíðum og er frá því í desember 2021 til september 2022. Þá lagði Karl Ingi Vilbergsson saksóknari fram viðbótargögn við þingfestinguna.
Sindri vildi ekki veita viðtal að lokinni þingfestingu og Ísidór svaraði ekki beiðni blaðamanns um viðtal.
Fréttin hefur verið uppfærð.