Ás­laug Arna Sigur­björns­dóttir, ný­skipaður dóms­mála­ráð­herra, segir á­kvörðun Yfir­deildar Mann­réttinda­dóm­stóls Evrópu í máli Lands­réttar, á­nægju­lega. Þetta kom fram í kvöld­fréttum ríkis­út­varpsins. Áslaug segir eðlilegt að dómararnir sem málið snýst um fái nú tækifæri til að meta stöðuna.

Eins og Frétta­blaðið greindi frá fyrr í dag greindi efri deild MDE frá á­kvörðun sinni fyrr í dag. MDE komst að þeirri niður­stöðu með dómi 12. mars síðast­liðinn að fjórir af fimm­tán dómurum Lands­réttar hefðu ekki verið skipaðir í sam­ræmi við lög.

Dráttur á með­ferð mála við Lands­rétt er þegar farinn að gera vart við sig og hafa bæði Dóm­stóla­sýslan og Lög­manna­fé­lagið lýst á­hyggjum af stöðunni. Ás­laug segir við­búið að allt að ár geti liðið þangað til yfir­deildin kemst að niður­stöðu í málinu.

„Dómarar dæma sjálfir um sitt hæfi og það er kannski eðli­legt að þeir fái tæki­færi til að meta stöðuna í ljósi þessarar niður­stöðu,“ segir Ás­laug og bendir á að Hæsti­réttur hafi þegar komist að þeirri niður­stöðu að dómararnir hafi verið lög­lega skipaðir.

Það sé praktískt úr­lausnar­efni hvernig best megi tryggja starf­semi Lands­réttar. Hún hafi þegar kallað eftir nýjum og ítar­legri upp­lýsingum um fjölda mála og stöðu þeirra vð réttinn. Ás­laug hyggst setjast niður með ríkis­lög­manni og ræða málið í ríkis­stjórn á morgun. Miklu máli skipti að eins vel sé staðið að mála­til­búnaðinum fyrir Ís­land og kostur sé.