Dómnefndir Eurovision munu dæma atriði í undankeppni Eurovision í dómararennslinu sem fer fram í höllinni í Tórínó í kvöld.

Sýningin í kvöld er því alveg jafn mikilvæg og undankeppnin sjálf sem fer fram annað kvöld. Systurnar Sigga, Beta og Elín stíga á svið ásamt bróður sínum Eyþóri Inga og bakraddasöngvararnir Gísli Gunnar og Zöe syngja á hliðarlínunni.

Felix Bergsson segir sýningin í kvöld verði alveg eins og undakeppnin sjálf, sömu lag í sömu röð og meira að segja stig gefin, þó þau þýði í raun ekki neitt.

„Dómararennslið verður alveg sýningin sjálf. Við verðum í græna herberginu og fáum gervi stig frá löndum,“ útskýrir Felix. Á sama tíma eru alvöru stig gefin, sem verða innsigluð og ekki afhjúpuð fyrr en annað kvöld.

„Dómararnir horfa í kvöld og byggja stigagjöfina á frammistöðu keppenda í kvöld.“

Fréttablaðið verður á svæðinu og verður hægt að fylgjast með öllu í beinni á Instagrammi Fréttablaðsins.