„Rétt er að dómarar leitist við að stíga fram af háttvísi og hófsemi í opinberri umræðu að mati Halldóru Þorsteinsdóttur, héraðsdómara og lektor en hún hefur sérhæft sig í fræðilegum álitaefnum tengdum tjáningarfrelsi. Fréttablaðið spurði Halldóru um tjáningarfrelsi dómara í kjölfar orðaskipta Arnars Þórs Jónssonar dómara við Héraðsdóm Reykjavíkur og lögmannsins Sveins Andra Sveinssonar í Fréttablaðinu að undanförnu, vegna greinaskrifa hins síðarnefnda um evrópumál.
Munur á pólitískri og fræðilegri tjáningu
Halldóra segir dómara njóta tjáningarfrelsis og frelsi þeirra, líkt og allra annarra sé almennt ríkt.
„Hins vegar gegna dómarar sérstöku hlutverki og bera skyldur sem geta takmarkað þetta frelsi. Hér koma helst til skoðunar sjónarmið um hæfi dómara til þess að leysa með óhlutdrægum hætti úr einstökum málum og síðan sú ásýnd og trúverðugleiki sem dómskerfið þarf að njóta út á við,“ segir Halldóra. Vegna mikilvægis þessa trausts sé rétt að dómarar stígi fram af háttvísi og hófsemi í opinberri umræðu og að greinarmunur sé gerður á fræðilegri tjáningu annars vegar og pólitískri tjáningu eða þátttöku hins vegar.
Hins vegar gegna dómarar sérstöku hlutverki og bera skyldur sem geta takmarkað þetta frelsi.
„Pólitíska þátttakan er varhugaverðari með hliðsjón af því markmiði að dómarar séu sjálfstæðir og hlutlausir þegar kemur að því að leiða einstök mál til lykta,“ segir Halldóra og tekur dæmi: „Hafi dómari til dæmis tjáð sig með afdráttarlausum hætti um að tiltekin lög séu gölluð eða standist ekki stjórnarskrá má spyrja hvort viðkomandi sé heppilegur kandídat til þess að leysa úr máli þar sem á gildi viðkomandi laga reynir.“ Öðru gegni hins vegar um hlutlausa lögfræðilega umfjöllun í fræðigrein, í fyrirlestri eða á öðrum opinberum vettvangi.
„Það liggur til dæmis fyrir að hér á landi eins og víða hvar í Evrópu eru margir dómarar sérfræðingar á tilteknum réttarsviðum og þeirra framlag getur verið jákvætt þegar kemur að fræðiskrifum, umræðu og undirbúningi lagasetningar, skýringum á gildandi rétti og svo framvegis.“
Halldóra tekur dæmi um þá sem hafa úrskurðarvald á vettvangi eftirlitsstofnanna á borð við Neytendastofu, Persónuvernd, Samkeppniseftirlitið og starfsmenn þessara stofnana.
„Fræðileg og almenn tjáning, málstofur og fyrirlestrar um regluverkið sem slíkt er almennt talin eðlileg, en á hinn bóginn væri óásættanlegt að starfsmenn þessarra stofnanna opinberuðu skoðanir sínar á máli sem væri til umfjöllunar hjá stofnuninni.“
Lögum samkvæmt á niðurstaða dómsmála að ráðast af lögum og hlutlægu lögfræðilegu mati á þeim sönnunargögnum og málsástæðum sem færðar eru fram af hálfu aðila máls en ekki skoðunum dómarans á því hvernig hlutinir eigi að vera. „Þess vegna fer best á því að þeir kappkosti að koma í veg fyrir að réttmæt tortryggni rísi um óhlutdrægni þeirra,“ segir Halldóra.
Mikið þurfi til að valda vanhæfi
Aðspurð segir Halldóra dómaframkvæmdina benda til þess að nokkuð mikið þurfi til að koma til þess að dómari teljist vanhæfur vegna almennrar tjáningar sinnar.
„Það hefur til dæmis verið bent á að þátttaka í stjórnmálaumræðu geti verið ósamrýmanleg störfum dómara en því hefur hins vegar ekki verið slegið föstu að slík tjáning leiði almennt til vanhæfis,“ segir Halldóra. Öðru gegni hins vegar hafi dómari tjáð sig beint eða óbeint um aðila máls eða það úrlausnarefni sem undir er.
Halldóra tekur dæmi um meðdómsmann sem Hæstiréttur taldi vanhæfan vegna þess hann hafði ítrekað gagnrýnt tiltekna stjórnendur bankanna í aðdraganda hruns, þar á meðal þá sem bornir voru sökum í því máli sem hann var meðdómsmaður í. Að mati Hæstaréttar hafði hann með því lýst tiltekinni afstöðu til viðkomandi einstaklinga og taldist vanhæfur. Í öðru máli taldist dómari vanhæfur vegna ummæla og afstöðu til sérstaks saksóknara sem var aðili máls sem dómarinn hafði til úrlausnar.
Í samræmi við framkvæmd MDE
„Þetta er í raun alveg í takt við það sem við erum að sjá hjá Mannréttindadómstólnum og í löndunum í kringum okkur,“ segir Halldóra.
Mannréttindasáttmáli Evrópu leggur ákveðnar línur þegar kemur að tjáningu dómara. Dómurum er í auknum mæli játað svigrúm til tjáningar og þess að einangra sig ekki frá samfélaginu, þótt til þeirra séu gerðar tilteknar hátterniskröfur.
„Dómarar mega einnig hafa skoðanir og viðra þær innan vissra marka, að teknu tilliti til skyldna þeirra. Þetta fer þó allt eftir atvikum hverju sinni og það er auðvitað alveg ljóst að tjáning skoðana getur verið til þess falin að gera dómara vanhæfan í máli. Hlutleysið skiptir öllu máli þegar kemur að starfi dómarans,“ segir Halldóra.
Misjafnar reglur meðal Evrópuþjóða
Halldóra segir reglur um þessi efni misjafnar meðal Evrópuþjóða. „Sumar þjóðir miða við fullt og ótakmarkað tjáningarfrelsi á meðan aðrar þjóðir mæla fyrir um takmörkun tjáningar sem felur í sér stjórnmálaumræðu eða stjórnmálaþátttöku,“ segir Halldóra og bætir við: „Svo er það til í dæminu að dómarar megi tjá sig en þó mælt fyrir um að þeir geri það ekki í nafni dómarans þegar um opinbera umræðu er að ræða. Að dómari geri það þá í eigin nafni án tengsla við dómaraembættið,“ segir Halldóra. Á þessu sé allur gangur.