Stjórn Dómarafélag Íslands hefur sent frá sér yfirlýsingu vegna umræðu sem sprottið hefur upp í kjölfar úrskurðar héraðsdóms um vistun í sóttkvíarhúsi.

Í yfirlýsingunni segir að fullyrðingar um að dómstólar gangist fyrir aðför að sóttförum á óvissu- og hættutímum séu til þess fallnar að grafa undan stoðum réttarríkisins. Er þar vísað í pistil formanns Læknafélagsins sem birtist á vef félagsins síðastliðinn þriðjudag.

Í pistlinum fer Reynir Arngrímsson, formaður félagsins hörðum orðum um úrskurðinn og dómarann sem kvað hann upp.

„Úr­skurður héraðs­dóms er al­var­leg að­för að sótt­vörnum landsins og úr­ræðum sem þarf að vera hægt að grípa til á ó­vissu- og hættu­tímum. Þá vekur at­hygli að dómari skuli ekki hafa talið á­stæðu til að hafa dóminn fjöl­skipaðan með a.m.k. einn sér­fræðing á sviði sótt­varna,“ segir Reynir í pistlinum.

Þessi yfirlýsing er að mati stjórnar dómarafélagsins ekki í samræmi við efnisatriði málsins en úrskurður héraðsdóms í hinu umdeilda máli byggðist meðal annars á því að lagastoð hafi skort til að stjórnvöld mættu skerða frelsi borgaranna með svo íþyngjandi hætti. Þá hafi áðgerðirnar farið í bága við bæði meðalhófsreglu og jafnræðisreglu.

Grafa undan stoðum réttarríkisins

Í yfirlýsingunni kemur fram að vel megi gagnrýna dómstóla en „óvarlegar fullyrðingar á borð við að dómstólar gangist fyrir aðför að sóttvörnum á óvissu- og hættutímum eru ekki í samræmi við efnisatriði málsins og til þess fallnar að grafa undan stoðum réttarríksins.“

„Óvarlegar fullyrðingar á borð við að dómstólar gangist fyrir aðför að sóttvörnum á óvissu- og hættutímum eru ekki í samræmi við efnisatriði málsins og til þess fallnar að grafa undan stoðum réttarríksins.“

Í yfirlýsingunni er lögð áhersla á að stjórnvöld verði að hafa lagaheimild til að skerða frelsi borgaranna. Á því byggi bæði stjórnarskráin og skuldbindingar íslenska ríkisins á sviði mannréttinda.

„Í réttarríki er það hlutverk sjálfstæðra dómstóla að hafa eftirlit með því að stjórnvöld virði þessa skyldu sína.“

Yfirlýsing stjórnar Dómarafélagsins:

Stjórnarskrá lýðveldisins og skuldbindingar íslenska ríkisins á sviði mannréttinda byggjast meðal annars á því að stjórnvöld verði að hafa lagaheimild til að skerða frelsi borgaranna. Í réttarríki er það hlutverk sjálfstæðra dómstóla að hafa eftirlit með því að stjórnvöld virði þessa skyldu sína.

Málefnaleg gagnrýni á störf dómstóla á alltaf rétt á sér. Óvarlegar fullyrðingar á borð við að dómstólar gangist fyrir aðför að sóttvörnum á óvissu- og hættutímum eru ekki í samræmi við efnisatriði málsins og til þess fallnar að grafa undan stoðum réttarríksins.

Undir yfirlýsinguna skrifa Bergþóra Ingólfsdóttir, héraðsdómari, Karl Axelsson hæstaréttardómari, Kjartan Bjarni Björgvinsson, héraðsdómari og formaður Dómarafélagsins, Kristbjörg Stephensen, landsréttardómari og Kristrún Kristinsdóttir, héraðsdómari.