Dómara í hryðjuverkamálinu þykir varhugavert að ákæruliðirnir sem varða hryðjuverk í hryðjuverkamálinu svokallaða fari til efnislegrar meðferðar hjá dómstólunum.

Þetta kemur fram í úrskurði málsins, sem Fréttablaðið hefur undir höndum, en hann kveðinn upp í dag. Þar var ákveðið að umræddum liðum yrði vísað frá dómi.

Honum þótti skorta verulega upp á ákveðinn atriði ákærunnar. Erfitt væri fyrir sakborninganna að halda uppi vörnum, auk þess sem erfitt væri fyrir dómstólana að fjalla um málið án þess að halla myndi á þá, vegna þess hve óskýrir ákæruliðirnir séu.

„Liggur þó fyrir að málið er umfangsmikið og án fordæma. Miðað við atvik þess og eðli hinna meintu brota verður að gera ríkar kröfur um skýrleika téðra ákærukafla.“ segir í úrskurðinum.

Greint hefur verið frá því að þeir liðir sem vörðuðu meinta skipulagningu hryðjuverka hafi verið nokkuð ónákvæmir.

Ekki kom fram gegn hverjum, hvenær eða hvar meint hryðjuverk ættu að vera framin. Verjendur sakborninganna gagnrýndu það og kröfðust frávísunar.

Saksóknari sagði við munnlega málsmeðferð málsins að um væri að ræða óvenjulegt mál og því væri ákæran óvenjuleg.

Hann sagði að meint skipulagning hryðjuverka hefði verið komin skammt á veg, þegar lögreglan greip inn í og handtók mennina. Ákveðin atriði brotanna væru því óljós, jafnvel óákveðinn.