Lög um endurupptökudóm taka gildi á morgun og þá fellur skipun endurupptökunefndar niður, í samræmi við 17. gr. laganna. Dómararnir fimm sem taka eiga sæti í hinum nýja dómi hafa hins vegar ekki enn verið skipaðir.

Þrír dómaranna og jafnmargir til vara eru skipaðir að undangenginni tilnefningu dómstiganna þriggja en embætti tveggja dómara við réttinn eru auglýst og í þau er skipað að fenginni umsögn dómnefndar um hæfni umsækjenda.

Fyrir liggur að sautján sóttu um lausu dómaraembættin tvö og voru nöfn þeirra birt á vef stjórnarráðsins 9. október síðastliðinn.

Þingið dró kosningu nefndarmanns í sex vikur

Einn nefndarmanna í dómnefndinni sem meta á hæfni umsækjenda, lögmaðurinn Helga Melkorka Óttarsdóttir, tilkynnti í kjölfar birtingar á nöfnum umsækjenda að hún væri vanhæf til að taka afstöðu til umsækjendanna. Þann 13. október fékk Alþingi erindi frá dómsmálaráðuneytinu um að kjósa þyrfti nýjan mann í nefndina tímabundið vegna vanhæfis nefndarmanns. Rúmar sex vikur liðu áður en kosning nýs nefndarmanns fór fram en Ari Karlsson, lögmaður á lögmannsstofunni LMB Mandat, var tilnefndur og kosinn af Alþingi til að taka sæti tímabundið í dómnefndinni síðastliðinn fimmtudag. Þetta kemur fram í svari ráðuneytisins við fyrirspurn Fréttablaðsins.

Í svari ráðuneytisins segir að gengið verði frá skipun í dómstólinn um leið og niðurstaða dómnefndar um tvö embætti dómenda liggi fyrir.

„Það er ekki ljóst á þessari stundi hvenær það verður en nefndin vinnur í samræmi við reglur um dómnefnd um hæfni dómaraefna og hefur sex vikur til að koma með umsögn sína frá því hún er fullskipuð, segir í svarinu.

Afgreiðsla mála frestast þar til dómarar eru skipaðir

Samkvæmt 6. gr. laganna tekur endurupptökudómur frá og með morgundeginum við meðferð beðna um endurupptöku mála sem ekki hafa verið afgreiddar hjá endurupptökunefnd. Í svari ráðuneytisins segir að sjö beiðnir um endurupptöku mála sem bárust fyrir 1. desember til endurupptökunefndar munu flytjast yfir til Endurupptökudóms.

Ljóst er að afgreiðsla þessara mála mun frestast þar til dómurinn verður fullskipaður. Ekki er talið að það valdi vandkvæðum þó ávallt sé haft að leiðarljósi að slíkar beiðnir séu afgreiddar á sem skemmstum tíma.

„Ljóst er að afgreiðsla þessara mála mun frestast þar til dómurinn verður fullskipaður. Ekki er talið að það valdi vandkvæðum þó ávallt sé haft að leiðarljósi að slíkar beiðnir séu afgreiddar á sem skemmstum tíma,“ segir í svarinu.

Umdeild stjórnsýslunefnd sett á fót 2013

Lengst af tók Hæstiréttur Íslands sjálfur ákvörðun um endurupptöku bæði sakamála og einkamála á grundvelli beiðna þess efnis og voru skilyrði fyrir því að mál yrðu tekin upp að nýju tiltölulega þröng.

Fyrirkomulagi um endurupptökur var breytt með lögum árið 2013 og nýrri stjórnsýslunefnd falið að taka ákvörðun um endurupptöku mála, án þess þó að hróflað væri við skilyrðum fyrir því að heimild til endurupptöku yrði veitt.

Rök fyrir því að fela óháðri stjórnsýslunefnd ákvörðunarvald um endurupptökur voru einkum þau að óæskilegt væri að dómurum, jafnvel við sama dómstól og mál voru dæmd hjá, hefðu einir ákvörðunarvald um hvort mál skyldu endurupptekin.

Óhætt er að slá föstu að töluverð réttaróvissa hafi ríkt um endurupptökur mála frá því endurupptökunefnd tók til starfa. Fyrst var hún gerð afturreka með ákvörðun sem fól í sér að dómur Hæstaréttar skyldi falla úr gildi en ekki var talið forsvaranlegt að stjórnsýslunefnd sem heyrði undir framkvæmdarvaldið gæti fellt úr gildi dóma kveðna upp af sjálfstæðum dómstóli.

Þá tók Hæstiréttur einnig að endurskoða ákvarðanir nefndarinnar á grundvelli 60. gr. stjórnarskrárinnar en á grundvelli þess ákvæðis eiga dómstólar úrskurðarvald um lögmæti stjórnvaldsákvarðana. Með vísan til þessa ákvæðis og þeirra skilyrða sem þarf að uppfylla til að heimilt sé að endurupptaka mál, fór Hæstiréttur að vísa málum frá dómi sem nefndin hafði áður ákveðið að skyldi endurupptaka.

Frumvarp um endurupptökudóm var fyrst flutt í ráðherratíð Sigríðar Á Andersen, í mars 2018. Það var flutt aftur að ári og var loks samþykkt í vor sem fyrr segir.

Breytingin nú í þágu þrígreiningar ríkisvalds

Í greinargerð með lögunum segir meðal annars að færa megi veigamikil rök fyrir því að núverandi fyrirkomulag fari í bága við þrígreiningu ríkisvaldsins sem mælt er fyrir um í 2. gr. stjórnarskrárinnar. Með því að færa ákvörðunarvald um endurupptöku mála til sérdómstóls sem, sem ótvírætt tilheyri dómsvaldinu sé tryggt að meðferð endurupptökubeiðna verði í samræmi við ákvæði stjórnarskrárinnar.