Tón­listar­konan Dolly Parton vann ekki bara 9 til 5 líkt og segir í laginu góða, heldur kemur hún einnig að rann­sóknum og fram­leiðslu á CO­VID-19 bólu­efni Moderna. Guar­dian greinir frá.

Tón­listar­konan styrkti rann­sókn og fram­leiðslu á bólu­efninu um eina milljón Banda­ríkja­dollara, eða því sem nemur 135 milljónum ís­lenskra króna. Styrkurinn rann til Vander­bilt há­skólans en skólinn gegndi lykil­hlut­verki í því að búa til bólu­efnið með lyfja­fyrir­tækinu.

Fram kom í gær að bólu­efnið virkaði fyrir 95 prósent þeirra sem það nota, sam­kvæmt grunn­prófunum á efninu. Parton deildi því sjálf á Insta­gram í apríl að hún hyggðist styrkja Vander­bilt skólann.

Stuðningur söng­konunnar frægu hefur vakið mikla at­hygli. Þannig vekur net­verji einn at­hygli á því að hennar sé getið í vísinda­grein New Eng­land.