Einstaklingum sem luku námi á doktorsstigi hér á landi fjölgaði um rúmlega 100 á milli ára og hafa aldrei verið fleiri en skólaárið 2018-2019. Fjórir af hverjum tíu hafa innflytjenda bakgrunn, það er eru fæddir erlendis og eiga erlenda foreldra. Alls útskrifuðust 4.370 nemendur með próf á háskóla- og doktorsstigi sama ár. Þetta kemur fram á vef Hagstofunnar.

Tveir af hverjum þremur nemendum sem útskrifuðust úr háskóla á síðasta skólaári voru konur og 60 prósent nýútskrifaðra stúdenta á framhaldsskólastigi voru konur. Alls útskrifuðust 3.819 stúdentar úr 35 skólum skólaárið 2018-2019 og rúmur helmingur þeirra var 19 ára og yngri.

Nemendum sem útskrifuðust með sveinspróf fækkaðu um tæp þrjú prósent milli ára og voru skólaárið 2018-2019 um 650 talsins. Fjórir af hverjum fimm sem luku sveinsprófi og iðnmeistaraprófi voru karlar en konur voru um helmingur þeirra sem lauk öðrum réttindaprófum úr starfsnámi á framhaldsskólastigi.