Tekist hefur að endurlífga tvö þúsund ára gamlan döðlutrjástofn í Ísrael. Að því er CBS-fréttastofan bandaríska greinir frá hefur níu ára gamalt tré á samyrkjubúinu Ketura nú borið ávöxt.

„Við erum að tala um endurlífgun á meira en tvö þúsund ára döðlu­fræjum, sem eru úr Júdea-eyðimörkinni og frá Masada, og eru hluti af vísindatilraun,“ hefur CBS eftir Söruh Sallon, stjórnanda og stofnanda rannsóknaseturs á sviði náttúrulyfja í Jerúsalem.

Trénu, sem gefið hefur verið nafnið Judith og óx upp í níu ár í gróðurhúsi, var nýlega umplantað. Judith fetar þar með í fótspor trjánna Metúsalems, Adams, Jónasar og Hönnu. Síðastnefnda trénu var plantað 2019. Hanna gaf af sér um hundrað döðlur í fyrra og um sex hundruð döðlur á þessu ári.

„Mig langaði að sjá hvernig lækningajurtir í Ísrael voru og til hvers þær voru notaðar,“ segir Sallon við CBS. Hún hafi komist að því að margar tegundanna voru horfnar. „Við vissum hverjar þær voru því minnst er á þær í Biblíunni. Biblían er handbók okkar um fornar tegundir.“

Daðlan frá Júdeu var ein þessara horfnu tegunda. Hennar er getið í Biblíunni sem einnar af sjö tegundum í hinu forna Ísrael. Sallon segir döðlutré nútímans í Ísrael vera tegundir sem fluttar hafi verið inn eftir stofnun ríkisins á sjötta áratug síðustu aldar. „En þau eru ekki upprunalega tegundin sem hér óx,“ ítrekar Sallon.