Norski bankinn DNB hefur verið sektaður um 400 milljónir norskra króna, sem jafngildir sex milljörðum króna, fyrir verulega annmarka á lögbundnu eftirliti með peningaþvætti. Norska fjármálaeftirlitið gagnrýnir bankann harðlega og birtir skýrslu í dag um Samherjamálið en þar kemur fram að víða sé pottur brotinn hjá innra eftirliti bankans. Bankinn hyggst ekki áfrýja úrskurðinum. NRK greinir frá.

Grunur vaknaði um að íslenska útgerðafyrirtækið Samerhji stundaði peningaþvætti í gegnum reikning hjá DNB eftir umfjöllun Kveiks, Stundarinnar og Al Jazeera í nóvember árið 2019 um kvótabrask fyrirtækisins í Namibíu.

Norska efnahagsbrotadeildin, Økokrim, setti á laggirnar rannsókn á starfsemi bankans strax í kjölfarið. Rann­sókn Økokrim beindist að því hvers vegna bankinn hafi ekki til­kynnt um grun­sam­legar milli­færslur Sam­herja­fé­laga til fé­lagsins Tunda­vala í Dubai. Bankinn DNB var þó ekki ákærður vegna viðskipta sinna við Samherja og meintra brota fyrirtækisins í Namibíu og lét saksóknari í Noregi málið falla niður.

DNB segist taka athugasemdum eftirlitsins mjög alvarlega. Kjerstin Braathen, forstjóri DNB, segir það áhyggjuefni að bankinn þekki ekki viðskiptavini sína, nauðsynlegt sé að tilkynna alla starfsemi sem virðist grunsamleg.