Veginum um Djúpavatnsleið hefur verið lokað vegna grjóthruns, um þrjá til fjóra kílómetra frá Krísuvíkurvegi.

Fram kemur í tilkynningu frá almannavörnum að talsvert grjót hafi fallið úr hlíðinni og niður á veginn.

Ekki hafa borist tilkynningar um frekari lokanir á vegum í kjölfar skjálftanna á Reykjanesi, að sögn Jóhanns K. Jóhannssonar, samskiptastjóra hjá Ríkislögreglustjóra.

Þar að auki hafi almannavörnum ekki verið tilkynnt um neinar skemmdir á eignum eða meiðsl á fólki.

Skjálfti að stærð 5,6

Klukkan 13:43 mældist stór skjálfti á Reykja­nesi að stærð 5,6 í Núps­hlíðar­hálsi, 5 kílómetra vestur af Seltúni. Yfir 100 eftir­skjálftar hafa fylgt í kjöl­farið, sam­kvæmt Veður­stofu Ís­lands.

Tveir stórir eftir­skjálftar urðu norður og norð­austur af Fagra­dals­fjalli. Einn klukkan 15:32 sem var 4,1 að stærð um 3,8 kílómetra norður af Fagra­dals­fjalli og annar 4,0 að stærð 1,4 kílómetra norð­austur af Fagra­dals­fjalli.

Fólk sem fann fyrir skjálfta er hvatt til þess að tilkynna þá hér til Veðurstofunnar og hjálpa þannig til við að meta jarðskjálfta og viðbrögð við þeim í framtíðinni.

„Allar skráningar eru mikilvægar, allt frá að hafa fundið lítillega fyrir skjálftanum upp í að skrá hrun og hreyfingar á innanstokksmunum,“ segir í tilkynningu frá almannavörnum.