Björk Eiðsdóttir
bjork@frettabladid.is
Föstudagur 3. september 2021
23.00 GMT

Við hittumst í Gaflaraleikhúsinu þar sem verkið verður að öllu óbreyttu frumsýnt eftir viku en frumsýningarbiðin hefur verið löng eins og í öðrum leikhúsum. Þríeykið var leitt saman fyrir ári síðan af engri annarri en Eddu Björgvins. Björk Jakobs, einn eigenda Gaflaraleikhússins, hugðist gera nýja sýningu og mælti Edda með að hún fengi þær Selmu og Sölku með sér og úr varð Bíddu bara sem þær kynna sem drepfyndið verk um raunveruleika íslenskra kvenna.


Þegar þrjár listakonur úr ólíkum reynsluheimum, á fertugs-, fimmtugs- og sextugsaldri koma saman til að skapa gleðileik um eigið líf, er úr nægu að moða og er stutt í hláturinn og kaldhæðnina þegar sest er að spjalli með þeim.


Björk: Þegar við hittumst smullum við alveg svakalega enda erum við fulltrúar þriggja kynslóða. Ég er svona seinni helmings kynslóðin. Ég er komin á breytingaskeiðið og börnin farin að heiman. Ég skoða því hvaða áhrif það hefur á mann. Selma er einstæð ofurkona með unglinga og sjö aukavinnur og speglar því allt sem því tengist. Svo er það Salka sem er að byrja á þessu öllu saman.

Bíddu bara sérfræðingarnir


Salka á von á sínu öðru barni með stuttu millibili og er sú sem kom með heitið á verkinu; Bíddu bara.

Björk: Við Selma erum svo hoknar af reynslu að við vorum alltaf að segja við hana; „Bíddu bara Salka mín,“ við hinu og þessu. Svo fór að hún stakk upp á að verkið héti þessu nafni enda umkringd „bíddu bara sérfræðingum.“

Selma: Maður er alltaf að segja þetta. Hún kannski segir; „Mér líður vel núna á meðgöngunni“ og maður svarar: „Já, bíddu bara þangað til þú færð grindargliðnun. Þetta á bara eftir að versna.“ Þetta er svo mikil lenska í okkar þjóðfélagi og þá ekkert bara hjá konum. Við segjum þetta öll og þegar við ákváðum að þetta yrði titill verksins fór ég að taka enn meira eftir þessu.

Salka: Maður heyrir þetta mikið alla meðgönguna og líka þegar barnið er komið í heiminn. Ég veit að þetta kemur frá góðum stað en fyrir ákveðnar týpur getur þetta verið mjög kvíðavaldandi,“ segir Salka og tekur enn eitt dæmið: „Bíddu þar til barnið fer að taka tennur, þá ertu ekki að fara að sofa neitt!“

Selma: Þetta er líka svona ef maður skilur. Þá fær maður að heyra; „Þetta er kannski í góðu núna en bíddu bara, hann á eftir að yngja upp.“ Og „Bíddu bara þar til stjúpmamman kemur og ætlar að fara að ala upp þín börn. Bíddu bara þar til þau eignast börn!“ Það er alltaf verið að margfalda áhrifin.“


„Þetta er líka svona ef maður skilur. Þá fær maður að heyra; „Þetta er kannski í góðu núna en bíddu bara, hann á eftir að yngja upp.“

Selma


Salka: Svo er það: „Bíddu bara þangað til þú ferð á breytingaskeiðið. Svo þegar maður er búinn á því, þá er það: „Bíddu bara þangað til þú ferð á elliheimili“ og þegar þangað er komið er það: „Bíddu bara þangað til þú deyrð.“

Selma: Maður á alltaf að vera að bíða eftir því að hlutirnir versni.

Salka: Ef maður færi nú að temja sér að segja „Bíddu bara, þetta verður betra.“

Spegla sig hver í annarri

Björk: Við erum svolítið að gera grín að þessu. Ég myndi ekki segja að við séum að grafa neitt voðalega djúpt þó að á bak við sögurnar séu oft djúpar og sárar tilfinningar. Við viljum bara hlæja og hafa gaman og spegla okkur hver í annarri. Við reynum að dvelja ekki mikið í sárum skilnaði en við erum með mjög hresst skilnaðarlag og texta.“

Salka: Um leið og maður segir eitthvað upphátt þá áttar maður sig á því strax að maður er ekki einn. Nærtækasta dæmið mitt er tæknifrjóvganirnar sem ég þurfti að undirgangast þegar ég átti dóttur mína og nú aftur. Um leið og ég hef farið að tala um þá reynslu þekkja allir einhvern sem hefur gengið í gegnum svipað.


„Nærtækasta dæmið mitt er tæknifrjóvganirnar sem ég þurfti að undirgangast þegar ég átti dóttur mína og nú aftur. Um leið og ég hef farið að tala um þá reynslu þekkja allir einhvern sem hefur gengið í gegnum svipað."

Salka


Þegar þær stöllur fóru að vinna að verkinu var Salka í tæknifrjóvgunarferli sem hún segir hafa gengið upp og ofan en nú þegar frumsýning er fram undan er meðgangan rúmlega hálfnuð.

Salka: Það er auðvitað krefjandi að vera í svona ferli og dæla í sig hormónum. Ég tala mjög opinskátt um þetta allt og finn að fólk dýrkar að heyra það. Stundum finn ég að fólki af eldri kynslóðum bregður þegar ég tala um þetta og það er allt í lagi, við erum bara að læra og lifa.

Björk: Við tölum líka um það. Ég tala til að mynda um að mér finnist ákveðið tabú að ræða svona lagað því það er svolítið kynslóðin mín. Fólk segir til dæmis oft: „Bíddu bara þar til þú eignast börn“ en það er bara fullt af fólki sem getur ekki átt börn. Við þurftum að tala um alls konar hluti við vinnslu verksins. Ég tala til dæmis um það hvernig það er að vera með uppkomin börn, mér finnst ég oft voða ósýnileg og óþörf í samfélaginu og því fylgir ákveðinn einmanaleiki. Við komumst einnig að því að við erum allar með bullandi kvíða eins og kannski meirihluti íslensku þjóðarinnar.


Allar með bullandi kvíða

Þegar þær eru spurðar út í það hvernig kvíðinn lýsi sér hjá hverri og einni bresta þær í söng, það er Kvíðalagið sem þær sömdu fyrir verkið og hefst á orðunum: Ég er með kvíða fyrir flestu.

Björk: Ég er með ríðukvíða. Það eru allir á Íslandi að gera það svo mikið og mér finnst við hjónin bara ekki vera að standa okkur nægilega vel á því sviði. Svo er ég líka hestamanneskja og er alltaf með kvíða yfir því að ríða ekki nægilega mikið út. Svo þetta er tvíþættur ríðukvíði.


„Ég er með ríðukvíða. Það eru allir á Íslandi að gera það svo mikið og mér finnst við hjónin bara ekki vera að standa okkur nægilega vel á því sviði."

Björk


Selma: Ég er með afkomukvíða, frammistöðukvíða, félagskvíðaröskun, aðskilnaðarkvíða, löggu­kvíða og bara alls konar kvíða.

En þú Salka?

Björk: Þú ert meira að segja greind með kvíða!

Salka: Ég er bara algjör kvíðabolti og það þarf lítið til að koma mér þangað. En ég er alltaf að ná betri stjórn á honum og læra inn á hann. Hann getur poppað upp á órökréttum tímum og þá býst maður við því versta.

Selma: Það litaði líka æfingatímabilið. Við erum að deila persónulegum reynslum og við notum okkar eigin nöfn og það veldur auðvitað ákveðnum kvíða. Þá fer maður að draga sig niður og efast um sjálfan sig. Tilurðin á þessu leikriti er í raun búin að vera marínerandi kvíðakeis.

Björk: Já, þó ég segist vera með ríðukvíða í verkinu þá er það bara vegna þess það var fyndnasti kvíðinn en ekkert endilega dagsannur. Þó að verkið sé byggt á okkur erum við óhræddar við að ýkja og ljúga helling.

Kvíðinn er margþættari og hefur aukist með aldrinum hjá mér sem ég held að sé algengt. Nú skil ég til að mynda hvers vegna gamlar konur segja alltaf: „Guð minn almáttugur farðu varlega!“ Þetta er bara þessi lífskvíði.

Selma: Lífskvíði, dauðakvíði og hamfarakvíði. Svo hefur Covid gert það að verkum að maður hefur fengið sjúkdómakvíða og afkomukvíða. Við erum búnar að missa vinnurnar endalaust og aftur og aftur og aftur. Það hefur bara bætt á mann kvíða. Ég byrjaði til að mynda á að bæta á mig sex kílóum og missti þau svo aftur. Þetta er allt kvíðatengt, fyrst borða ég tilfinningar mínar og missi svo matarlystina. Þó svo við séum að gera grín af þessu er þetta dauðans alvara.

Þó þær stöllur geri óspart grín af upplifunum sínum segja þær oft djúpar og sárar tilfinningar liggja að baki. Fréttablaðið/Eyþór

Björk: Það er svo mikilvægt að tala um þetta enda pípir Instagram stöðugt á mann til að segja manni hvað allir eru hamingjusamir. Þarf maður að sjá fólk með kokteilglas í Bláa lóninu á mánudagsmorgni? Er það akkúrat það sem maður þarf á þeirri stundu?

Salka sem fulltrúi ungu kynslóðarinnar og mæðra með ung börn hlýtur að finna fyrir pressu þar sem mæður eru duglegar við að birta vel klædd börn og stíliseruð barnaherbergi á miðlinum.

Salka: Ég held að ég sé nógu klár til að láta þetta ekki ná til mín.

Selma: Pressan getur líka orðið til þess að mæðrum finnist þær ekki vera að standa sig. Maður er alveg nógu óöruggur með fyrsta barn.

Salka: Ég skil alveg að þetta geti náð til ungra mæðra.

Björk: Þó við notum okkar eigin nöfn í verkinu þá er Salka fulltrúi ungu kynslóðarinnar og margt það sem hún er látin ganga í gegnum er eitthvað sem ég fór í gegnum sem ung móðir eins og hræðslan við uppeldissérfræðingana.

Stefnumótamarkaðurinn eftir fertugt


Selma:
Svo erum við líka að tala um hvernig það er að vera á stefnumótamarkaðnum eftir fertugt, eftir skilnað. Baráttuna við það að vera þarna úti og verða fyrir stöðugum vonbrigðum því það eru nú ekki margir góðir kostir á lausu.

Ég fer til dæmis út í það hverjir eru á lausu en það eru fráskildir virkir alkar, fráskildir óvirkir alkar, spilafíklar, flassarar, skápahommar, nískupúkar, hallelújahopparar, tukthúslimir, gamalmenni og skyldmenni. Og þegar maður er búinn að sigta þá frá eru sirka fimm eftir. Svo þegar maður fer að rýna í þessa fimm kemst maður að því að þeir eru búnir að deita, halda fram hjá, eða vera giftir frænku þinni, systur þinni, nágrannakonu þinni, kollega þínum eða ömmu þinni. Þetta er veruleiki manns á stefnumótamarkaðnum. Svo er það þessi innri barátta, að vilja bara vera ein en vera samt alltaf að vonast eftir því að finna lífsförunaut.

Salka: Við erum allar með ólíkar reynslur sem er frekar geggjað. Svo við erum jafn mikið að segja frá og að hlusta.


„Ég fer til dæmis út í það hverjir eru á lausu en það eru fráskildir virkir alkar, fráskildir óvirkir alkar, spilafíklar, flassarar, skápahommar, nískupúkar, hallelújahopparar, tukthúslimir, gamalmenni og skyldmenni."

Selma


Breytingaskeiðið afsökun fyrir öllu


Breytingaskeiðið er eitt umræðuefnanna en það er ekki mikið talað um það í daglegu tali milli kvenna, alla vega ekki yngri kvenna.

Björk: Ég er mjög opinská með þetta.

Ég segi bara: „Fyrirgefðu að ég viti ekki hvað mamma þín heitir, ég er á breytingaskeiðinu.“ Þetta er frábær afsökun fyrir öllu. Ég kannski fer í viðtal og man ekki hvað forseti Íslands heitir en það er allt í lagi því ég er á breytingaskeiðinu og því með heilaþoku. Ég tala aðeins um þetta og það þegar börnin fara að heiman og maður þarf að fara að vera æðislega rómantískur aftur og fara allt í einu einn með kallinum í ferðalög. Hver nennir því? Og vera rómantískur á miðju breytingaskeiði þegar maður svitnar eins og maður sé í sána og með skapbreytingar eins og flóðhestur í geðrofi. Þetta er náttúrlega ekkert auðvelt. Og svo stundum þegar kallinn opnar munninn langar mann bara til að skjóta hann!

Selma: En það er eitt sem er aldrei rætt – kynlíf eftir sextugt! Mig langar að vita hvernig það er – það er bara aldrei rætt.

Björk: Ég á nú bara fimm ár eftir í sextugt!

Selma: Nákvæmlega! Ég ætla að hringja í þig eftir fimm ár og heyra hvernig gengur!

Björk: Heldurðu að það breytist æðislega mikið á fimm árum?

Selma: Nei, en líka bara þegar fólk er orðið 67 og sjötugt. Mig langar að vita þetta.


Skilur ekki að fólk nenni að skilja


Björk: Ég skil ekki fólk sem nennir að skilja. Selma skilur ekki hvernig ég hef nennt að hanga með sama karlinum í hundrað ár og svo erum við báðar að segja Sölku að það séu mjög litlar líkur á því að hennar hjónaband haldi.

Selma: Samkvæmt Hagstofu Íslands endar þriðja hvert hjónaband í skilnaði svo það er ekkert víst að hennar haldi.

Björk: Selma vill bara að hún drífi í því að skilja á meðan ég segi henni frekar að halda sig við gömlu sófa­klessuna.

Salka: Ég er bara föst á milli tveggja elda.

Þær skella upp úr enda samtalið auðvitað á gamansömu nótunum þó svo að tölur Hagstofunnar séu ekki upplognar.

Úr verkinu þar sem instagramkvíðinn er meðal annars til umfjöllunar. Mynd/Aðsend

Selma: Þó þetta sé það sem við erum að ganga í gegnum þá er margt af því sammannlegt.

Björk: Ég hef alla tíð verið óhrædd við að heimfæra djóka upp á sjálfa mig. Ég er ekkert að segja að allt eigi við mig eða mitt hjónaband en þetta er margt sem mín kynslóð er að ganga í gegnum. Þá er gott að heimfæra það upp á sjálfan sig, ýkja svo hressilega og þá fer fólk kannski að hlæja.

Salka: Það er líka þægilegt að bresta í söng þegar maður á erfitt með að tjá sig. Við stóðum hér margoft við píanóið með Karli Olgeirssyni og úr urðu heil sex lög.

Björk: Það er nú næstum því söngleikur.


Hamingjupressan ógurlega

Talið berst aftur að hamingjupressunni sem rædd var stuttlega áður.

Björk: Ég er komin á þann aldur að lífið er bara ekkert ógeðslega skemmtilegt alltaf. Ég fór á eitthvað núvitundarnámskeið þar sem ég átti að liggja og slaka á og leiðbeinandinn sagði: „Rifjaðu nú upp þrjár hamingjustundir yfir daginn.“ Og ég bara: „Það er mánudagur!“ Eru þrjár hamingjustundir yfir daginn ekki dálítið mikið? Svo hugsaði ég, Jú, Fréttablaðið kom í dag eftir langa bið og það var hamingjustund og svo mundi ég ekki eftir fleiru. Við grínumst með þetta en þetta er alls staðar svona.


Ég fór á eitthvað núvitundarnámskeið þar sem ég átti að liggja og slaka á og leiðbeinandinn sagði: „Rifjaðu nú upp þrjár hamingjustundir yfir daginn.“ Og ég bara: „Það er mánudagur!“"

Björk


Selma: Svo les maður fréttamiðla og það er bara dauði og djöfull alls staðar og maður lokaður inni. Svo skoðar maður Instagram hjá fólki sem er að gera miklu skemmtilegri hluti.

Björk: Ég er nýbyrjuð á Instagram og skil alveg að ungt fólk sé kvíðið. Þetta er rosa mikið að uppfylla, þú ert kannski ekki orðinn tvítugur og það eru allir að meika það. Um leið og þú opnar símann eru allir með stórkostlegt líf. Ég væri svoleiðis hágrátandi heima hjá mér ef ég væri unglingsstúlka.

Selma: Svo er það þessi læk eltingaleikur. Ef þú ert ekki með marga fylgjendur þá póstarðu ekki neinu því þú vilt ekki fá bara fimmtán læk á meðan vinur þinn fær 400. Þetta er hræðilegt því þú ferð þá í felur af lækhræðslu.

Björk: Má þetta ekki bara vera eins og í gamla daga? Þegar fólk talaði bara illa um mann þegar maður heyrði ekki til? Nú er þetta orðið opinbert og beint í andlitið á manni.

Selma, Salka og Björk smullu strax saman og eru í verkinu fulltrúar sinnar kynslóðar. Fréttablaðið/Eyþór

Salka: Við erum líka af mismunandi kynslóðum með þetta allt. Ég er búin að læra inn á þetta, ég unfollowa og passa upp á algóritm­ann minn svo ég verði síður fyrir slæmum áhrifum. En ég fæ vissan kvíða yfir því að ala upp barn í þessum aðstæðum. Ég skil leikreglurnar núna en mun örugglega ekki gera það eftir einhvern tíma. Við lifum í svo hröðum heimi þar sem allt er alltaf að breytast.


Yngri kynslóðir stokka upp

En ætli pressan sé almennt meiri á konum í samfélaginu?

Salka: Mér finnst umræðan um „mental load“ vera jákvæð, hún er alveg ný. Mér finnst líka yngri kynslóðir vera að stokka svo rosalega upp í hlutunum að ég er spennt fyrir framtíðinni. Við getum ekki sagt hvernig önnur kyn upplifa hlutina en ég settist niður með manninum mínum um daginn og ræddum þetta mental load sem oft vill lenda meira á konum.

Björk: Hvað er mental load?

Salka: Þetta er stundum líka kallað þriðja vaktin. Þegar konan kemur heim og veit hvað er til í ísskápnum, hvað á að læra fyrir morgundaginn, hvaða íþróttaföt eru hrein og að það er afmæli á föstudaginn. Ég stóð mig að því að vera þreytt á að gera fullt af svona litlum hlutum svo við hjónin settumst niður og ræddum þetta og ætlum að passa upp á að deila þessu. Um leið hugsaði ég bara til mömmu og hugsaði: Fokk! Hvað hún hafi þurft að fara í gegnum og manni fannst það alltaf eðlilegt. Ég er svo spennt að sjá hvert mín kynslóð og næstu eru að fara.

Ég er líka oft að útskýra hluti fyrir Björk og Selmu, eins og að hán sé kynsegin og svo framvegis.


„Ég stóð mig að því að vera þreytt á að gera fullt af svona litlum hlutum svo við hjónin settumst niður og ræddum þetta og ætlum að passa upp á að deila þessu."

Salka


Björk: Við tókum einmitt umræðuna um pólitískan rétttrúnað, en ég er skíthrædd og þori varla að umgangast ungt fólk lengur.

Salka: En það er einmitt svo fallegt að hlusta. Þær hlusta og ég hlusta. Þær hafa eitthvað að kenna mér en ég hef líka margt að kenna þeim. Það væri óskandi að við tækjum það meira til okkar almennt. Manni er alltaf kennt að bera virðingu fyrir þeim sem eldri eru og að þeir eldri viti best en stundum er líka allt í lagi að hlusta á þá sem yngri eru.

Selma: Það er nauðsynlegt að yngri kynslóðirnar hristi upp í hlutunum.

Salka: Við lærum hver af annarri og ég held að það sé markmiðið og það er fallegt.

Athugasemdir