„Það sem af er októ­ber hefur vindur verið hægari á landinu en oftast er raunin á þessum árs­tíma. Margir hafa nýtt ró­lega daga undan­farið til að njóta úti­vistar í haust­kyrrðinni. Nú eru hins vegar breytingar á veður­lagi í vændum því spár gera ráð fyrir að djúpar lægðir verði tíðir gestir fyrir sunnan og suð­austan land næstu 6 daga og jafn­vel lengur,“ segir í hug­leiðingum veður­fræðings á vef Veður­stofu Ís­lands.

Gera má ráð fyrir því að austan- og norð­austan­átt verði ríkjandi í þessum lægða­kafla og oft á tíðum hvasst. Með lægðunum fylgir rigning eða slydda og er út­lit fyrir að mesta úr­koman verði á austan­verðu landinu en í minna mæli vestan­lands. Að sögn veður­fræðings koma þó vonandi kaflar inn á milli þar sem vindur verður hægari.

„Ef við snúum okkur nú að veðri dagsins, þá er vaxandi austan­átt nú í morguns­árið og má búast við all­hvössum vindi nokkuð víða þegar kemur fram á daginn og þegar líða fer að kvöldi slær væntan­lega í storm syðst á landinu,“ segir í hug­leiðingum veður­fræðings.

Tekið er fram að norðan­lands verði vindur skap­legur í dag og í suð­austur­fjórðungi landsins verði lengst af rigning. Í öðrum lands­hlutum verður úr­koma lítil, í mesta lagi dá­lítil rigning um tíma. Hiti verður yfir­leitt á bilinu 2 til 7 stig en kaldara verður norð­austan­til á landinu þar til síð­degis að það fer að hlýna.

Þó ber að taka fram að norðan­lands verður vindur skap­legur í dag. Í suð­austur­fjórðungi landsins verður lengst af rigning, en í öðrum lands­hlutum verður úr­koma lítil, í mesta lagi dá­lítil rigning um tíma. Hitinn yfir­leitt á bilinu 2 til 7 stig, en kaldara norð­austan­til á landinu þangað til síð­degis.

Veður­horfur á landinu næstu daga

Á laugar­dag (fyrsti vetrar­dagur):
Gengur í norð­austan 13-23 m/s, hvassast á Vest­fjörðum og í vind­strengjum á SA-landi. Rigning eða slydda, en þurrt S- og V-lands. Hiti 2 til 8 stig, mildast syðst.

Á sunnu­dag:
Norð­austan 13-18, en hægari um landið A-vert. Víða rigning eða slydda, en þurrt á S- og SV-landi. Hiti breytist lítið.

Á mánu­dag:
Norð­aust­læg átt. Dá­lítil slydda eða rigning á N-landi og smá væta syðst á landinu, annars skýjað með köflum og þurrt. Hiti 0 til 6 stig.

Á þriðju­dag og mið­viku­dag:
Austan- og norð­austan­átt og rigning með köflum, en úr­komu­lítið V-lands. Hiti 2 til 8 stig.