Þeir sem hyggja á ferða­lög næstu daga ættu að fylgjast vel með veður­spám og færð því kröpp og djúp lægð frá Ný­fundna­landi nálgast landið. Að sögn veður­fræðings á vef Veður­stofu Ís­lands hvessir úr austri á morgun og verður hvassast við suður­ströndina, jafn­vel stað­bundinn stormur um kvöldið.

Í hug­leiðingum veður­fræðings kemur fram að lítils háttar væta verði víða um land á morgun en þurrt að kalla fyrir norðan. „Á­fram­haldandi hvassir vindar og úr­komu­samt fram á sunnu­dag, þegar lægir loks og rofar til, en fremur hlýtt miðað við árs­tíma,“ segir í hug­leiðingum veður­fræðings.

Í dag gengur í suð­austan­kalda með smá rigningu eða slyddu á sunnan- og vestan­verðu landinu en úr­komu­minna verður með kvöldinu. Vindur verður hægari norð­austan til og má þar búast við bjart­viðri. Hvassast verður á Snæ­fells­nesi og gerðir Veður­stofan ráð fyrir að hiti verði á bilinu 1 til 6 stig síð­degis, en nærri frost­marki norð­austan­lands.

Veður­horfur á landinu næstu daga

Á fimmtu­dag:
Gengur austan 13-20 m/s með rigningu á S-verðu landinu, hvassast syðst og jafn vel stormur þar um kvöldið. Hiti 1 til 6 stig. Hægara og þurrt fyrir norðan og hiti kringum frost­mark.

Á föstu­dag:
Norð­austan 13-20 m/s, hvassast á Vest­fjörðum með tals­verðri rigningu S- og A-lands, en annars úr­komu­minna. Hiti 1 til 7 stig, mildast syðst.

Á laugar­dag (fyrsti vetrar­dagur):
Út­lit fyrir norð­austan­hvass­viðri, jafn vel storm með tals­verðri rigningu á A-helming landsins, en annars úr­komu­minna og milt í veðri.

Á sunnu­dag:
Stíf norð­austan­átt NV-til, en annars mun hægari vindar. Væta í flestum lands­hlutum og fremur hlýtt í veðri.

Á mánu­dag:
Lík­lega hæg norðan­átt með skúrum éljum, en úr­komu­lítið syðra og fremur svalt veður.

Á þriðju­dag:
Líkur á vaxandi austan­átt með rigningu og hlýnandi veðri.