Stefán Pálsson sagnfræðingur sem skipaði annað sætið á lista VG í Reykjavík, telur langlíklegast að Framsókn, Samfylking, og Píratar muni skipa nýjan meirihluta í borginni, með eða án Viðreisnar.

„Myndi veðja bílnum upp á það,“ segir Stefán.

VG er í sárum í borginni eftir að flokkurinn fékk aðeins fjögurra prósenta fylgi. Stefán telur að hinn fallni meirihluti Samfylkingar, Pírata, Viðreisnar og VG hafi ekki spilað nægilega vel úr sínu í kosningabaráttunni. Hann segir að kappkostað hafi verið að slétta yfir allan ágreining. Hjá R-listanum forðum hafi flokkarnir að baki samstarfinu oft tekist á opinberlega og slíkt sé eðlilegt í samsteypustjórn. Of mikil áhersla hafi hjá fráfarandi meirihluta verið lögð á einingu og að ágreiningsmál væru útkljáð í bakherbergjum. Þetta hafi leitt til þess að kjósendur hafi átt erfitt með að greina áherslur hvers flokks.

„Ég held þetta hafi ágerst við djöfulganginn í Vigdísi Hauksdóttur,“ segir Stefán.

Þá segir Stefán að annar ágalli hafi orðið í pólitíkinni. Öllu nefndarstarfi sé nú dembt á aðalfulltrúa og varafulltrúa. Áður hafi fólk jafnvel neðarlega á listum gegnt formannsstöðu í nefndum. Kenning Stefáns er að embættismönnum gagnist þetta ágætlega en pólitíkinni sé ekki ætlað að gera lífið þægilegra fyrir embættismenn.

Um þá ákvörðun Lífar Magneudóttur, oddvita VG, að lýsa yfir að VG velji að starfa í minnihlutanum á kjörtímabilinu, segir Stefán að með því axli VG ábyrgð. Honum virðist sem það séu aðallega kjósendur annarra flokka sem þykist móðgaðir fyrir hönd kjósenda VG.