Hrekkjavakan hefur haslað sér völl hér á landi, sjálfur dagurinn er á morgun, en fjölmargir fagna honum alla helgina og er búrleskhópurinn Dömur og herra þar fremstir á meðal jafningja með fullorðinskabarett þar sem allt getur gerst.

Aðstandandur lofa djöflum, uppvakningum og ósóma í bland við dónaskap, grasker og grín.

„Fram koma kynósa köngulær, daðursjúkir draugar, banhungraðar blóðsugur, hugljúfir hamskiptingar, sexý slöngur og jafnsexý slöngutemjarar auk fjölda annarra yfirnáttúrulegra ofurvera og ógeðslistamanna sem fagna sér og öðrum af kæti og list. Sérstakur gestur er Íslandsvinurinn og hryllingstrúðurinn geðþekki Jellyboy the Clown,“ segir dragdrottningin Gógó Starr sem jafnframt er kynnir kvöldsins.

Gógó Starr, kynnir sýningarinnar lofar kynþokkafullum hryllings­kabarett.

Ekki skylda að mæta í búning


"Íslendingar eru heldur betur búnir að kveikja á Hrekkjavökunni og við vitum að margir gestir ætla að mæta í búning, en það er alls ekki skylda!"


Hvað ætlar Gógó sjálf að gera á sýningunni?


"Það kemur í ljós. Það verður sexí og hræðilegt. Hræðilega sexí allt saman. Það er rosalega gaman að blanda saman búrlesk-glamúrnum og svo þessum draugagangi. Þetta er fjórða hrekkjavökusýning hópsins og er alltaf mikil tilhlökkun."

Hópurinn lofar graskerjum og gríni.