Á mánudaginn verður að nýju frumsýnt leikverkið Listamaðurinn með barnshjartað, sem fjallar um ævi Samúels Jónssonar alþýðulistamann í Selárdal. Samúel bjó til einstaka list sína í Selárdal í Arnarfirði en unnið hefur verið að endurreisn listasafns hans í yfir 20 ár. „Það má nú segja að þetta sé einskonar Disneyland á hjara veraldar“ segir Elfar Logi Hannesson. Elfar er höfundur leikverksins og segir það vera forréttindi að fá að gefa ævi Samúels skil. „Þetta er svo ótrúleg saga og heillandi fyrir okkur listamennina að fást við.“

Elfar var í þann mund að fara á æfingu þegar blaðamaður náði tali af honum og sagði allt vera klárt fyrir frumsýninguna á mánudaginn. Sýningin var fyrst sýnd á Sambahátíð í Selárdal árið 2012. „Hann var kallaður Sambi hann Samúel“ en hann tekur fram að fólkið í dalnum séu miklir húmoristar.

„Ólafur Engilbertsson, sem er nú ein aðal sprautan í endurbyggingu í Selárdal, átti hugmyndina að því að ég myndi föndra leikverk um þennan merka Vestfirðing og listamann,“ en sýningin var aðeins sýnd þetta eina sinn og síðan ekki sögunni meir. „Mikið hefur verið spurt út í verkið síðustu ár svo við ákváðum að leggja í hann aftur núna.“

„Þetta er svo ótrúleg saga og heillandi fyrir okkur listamennina að fást við“ segir Elfar Logi.

Kirkjan hafnaði gjöfinni frá Samúel.

Elfar lýsir Samúeli sem ótrúlegum myndlistarmanni „Hann var svona eins og víkingarnir, fyrst og fremst bóndi sem þurfti að vinna fyrir brauði sínu og svo vann hann við þetta í frístundum sínum.“

„Einn daginn ákvað Samúel að búa til altaristöflu og það er náttúrulega stór áfangi í lífi myndlistarmanna,“ Samúel ætlaði að gefa kirkjunni í Selárdal töfluna í aldarafmælisgjöf. Vandamálið var að þegar var ævagömul altaristafla frá sautjándu öld í kirkjunni svo hún endaði með að hafnaði gjöfinni. „Þá var bara eitt að gera og það var að reisa kirkju fyrir altaristöfluna, sem var það sem að hann gerði.“

Reisti kirkju einn síns liðs 76 ára gamall.

Samúel var 76 ára þegar hann byggði kirkjuna einn síns liðs, „Ég er 48 ára og ég gæti ekki einu sinni gert anddyrið þarna“ segir Elfar hlæjandi. „Þetta er svo ótrúlegt verk og þess vegna lít ég á það sem forréttindi, verandi Arnfirðingur, að fá að leika þennan merka mann og frumherja.“

Elfar telur það sjást vel á listaverkum Samúels að hann hafi verið undir miklum áhrifum frá Miðjarðarhafinu. „Kirkjan, stytturnar og toppurinn á þessu öllu ljónagosbrunnurinn bera þess merki,“ en hann segir gosbrunninn vera endurgerð af ljónagarðinum í Alhambra á Spáni. „Arnarfjörðurinn er annálaður fyrir mikið logn og sólskin svo maður er stundum eins á Miðjarðarhafinu þegar maður er í Selárdal“ bætir Elfar við.

„Hann fór aldrei út fyrir landsteinana en samt var hugurinn þarna og hann skoðaði bækur og myndir af þessum listaverkum og lét bara myndverkið fara með sig.“

Listasafn Samúels Jónssonar er töfrum líkast.

Telur galdra vera í Selárdal.

Elfar er spenntur fyrir því að fá að gista í íbúðarhúsi Samúels í næstu viku. „Maður verður bara eins og Gísli í Uppsölum, verður þarna bara eins og sýnisgripur.“ Hann segist viss um það séu einhverjir galdrar í dalnum þar sem allskonar snillingar hafi búið þar, líkt og Samúel, Gísli í Uppsölum, Hannibal og fleiri.

Sex sýningar verða í heildina í næstu viku og Elfar telur víst að fólk muni finna fyrir Samúeli á svæðinu. „Það er ekki ólíklegt að Sambi verði með okkur, allavega í huganum, og að andi hans svífi þarna yfir“