Dýraverndarsamband Íslands (DÍS) segir að Matvælastofnun (MAST) sé að bregðast þeim dýrum sem höfð eru á Nýjabæ í Borgarfirði. Stofnunin hafi ekki brugðist við ítrekuðum fyrirspurnum samtakanna og ekki brugðist við þegar DÍS hafi sent þeim uppfærðar upplýsingar um ástand þeirra.

„Kerfið er hreinlega að bregðast dýrunum í þessu máli,“ segir Linda Karen Gunnarsdóttir formaður DÍS en samtökin sendu fyrirspurn á MAST fyrir tveimur dögum síðan þar sem kallað er eftir viðbrögðum frá stofnuninni vegna ástandsins. Engin svör hafi borist síðan þá frá MAST.

„Stjórnarmaður DÍS fór að bænum um helgina og fór síðan aftur í gær. Við vorum einnig að fá myndir og upplýsingar frá Steinunni Árnadóttur,“ segir Linda Karen sem segir að aðbúnaður dýranna sé sláandi. „En þegar að komið var þarna í gær var staðan bara eins og hún hefur verið.“

DÍS bíði enn eftir svörum frá MAST og því hafi verið tekin ákvörðun um að birta fyrirspurn DÍS til þeirra opinberlega.

„Því þetta er náttúrulega bara þannig að dýrin eru þarna hálf vatnslaus. Þau eru að drekka þarna upp úr skurði. En hann er víst núna orðinn mjög þurr og erfitt fyrir dýrin að komast ofan í hann. En það er líka mjög óvenjulegt að láta dýr drekka svona,“ segir Linda Karen og bætir við „Svo eru hestarnir með eitthvað fóður en það er víst bara ónýtt. Nautgripirnir hafa líka verið fóðurlausir.“

Dýrin í Borgarfirði eru virkilega illa haldin og hafa horast mikið.
Mynd/SteinunnÁrnadóttir

Hefðu getað skipað tilsjónarmann

Linda Karen segir að MAST hafi meðal annars það úrræði að skipa tilsjónarmann sem viðhefur eftirlit með umsjón dýra ef grunur er um að vanræksla sé í gangi.

En þau ákveða að gera það ekki. En aðilinn sem búinn er að brjóta á dýrunum fær að hafa þau áfram í sinni umsjá. Það endar svo þannig að það er búið að aflífa einhver þrettán hross en það hefði kannski farið öðruvísi ef skipaður hefði verið tilsjónarmaður. Þetta er bara sorgarsaga fyrir þessar skepnur,“ segir Linda Karen.

DÍS meðtók yfirlýsingu MAST um að aðstæður dýranna væru til skoðunar og taldi þá að lausn myndi fljótlega koma í málinu en svo var ekki.

„MAST segir í yfirlýsingum fyrr í haust að þau séu að vinna í málinu og þetta sé allt í ferli og það er bara gott. En það er samt ekki að sjá þegar maður fer þarna. Þau eru eftirlitsaðili að farið sé að lögum við meðferð dýra og þarna er augljóslega verið að brjóta þessi lög. Bæði ítrekað og alvarlega,“ segir hún en Linda Karen telur að Matvælaráðherra verði nú að stíga inn í málið

„Við teljum núna að komið sé að því að Matvælaráðuneytið og matvælaráðherra stígi inn. Þetta er stofnun sem er undir hennar ráðuneyti. Við lýtum svo á að eitthvað mikið þurfi að gerast. Eiga dýrin bara að verða úti þarna og deyja út hungri og þorsta?“ segir hún

Inga Sæland gagnrýndi ráðherra

Inga Sæland formaður Flokks fólksins krafðist í dag að gripið yrði til aðgerða vegna þeirra hrossa og nautgripa sem sætt hafa illri meðferð í Borgarfirði.

Það gerði hún í fyrirspurnartíma á Alþingi í morgun og beindi sérstaklega máli sínu til Svandísar Svavarsdóttur sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra.

Inga Sæland fór mikinn í ræðustól á Alþingi í dag og krafði sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra um svör.
Fréttablaðið/EyþórÁrnason

„Ég er eiginlega orðin svo andaktug yfir því hvers lags eiginlega slugsugangur er hér á ferðinni. Hvernig stendur á því að við þurfum að þola það, raunverulegir dýravinir og Íslendingar og íslenskur almenningur og fólkið sem býr í námunda við þessa bæi, þar sem í raun og veru, ég hef verið að tala við allnokkra einstaklinga, eru mismunandi há veinin sem koma út úr fjósinu þarna? Þau eru mismunandi hungruð greinilega, blessuð dýrin,“ sagði Inga.

Hún telur að ráðherra gæti beitt sér af meiri hörku í málinu en Svandís sagði að hún hefði þegar óskað eftir upplýsingum frá Matvælastofnun um verkferla í svona málum og hvort stofnunin telji sig skorta heimildir.