Utanríkisráðuneyti Rússlands hefur kallað sendiherra Noregs í Rússlandi á teppið og mótmælt framkomu norsks ræðismanns sem sagðist á hóteli í Murmansk hata Rússa. Var sendiherranum tilkynnt að vegabréfsáritun ræðismannsins hefði verið afturkölluð.

Utanríkisráðuneytið í Noregi hefur staðfest þetta við fréttamiðilinn Verdens Gang. Kemur síðan fram í tilkynningu frá ráðuneytinu að eftir á það sem undan hafi gengið sé útilokað að ræðismaðurinn verði í Rússlandi.

Norðmenn höfðu þegar beðist afsökunar á framkomu fulltrúa síns og sagt að viðhorf hennar endurspegluðu ekki viðhorf Norðmanna til Rússa.

Í myndbandi sem gengið hefur um á netinu sést ræðismaðurinn í anddyri hótels í Murmansk þar sem hún kvartar undan að þurfa bíða eftir að herbergi hennar sé þrifið og lætur þá meðal annars þau orð falla að hún hati Rússa.