Frægasti köttur landsins, Diego, er búinn í einni aðgerð eftir að hafa lent í bílslysi í Skeifunni í gærmorgun.
Þetta kemur fram í Facebook-færslu eiganda hans.
Greint var frá því í gær að ekið hafði verið á Diego og hann fluttur strax á dýraspítala til aðhlynningar.
Diego er enginn venjulegur köttur en sérstakri síðu, Diego til heiðurs, er haldið úti á Facebook undir nafninu Spottaði Diego en alls eru um níu þúsund manns í hópnum.
Diego slasaðist mikið en hann er með rifna vöðva, slitin liðbönd og datt úr lið. Þá var hann einnig með ljótt sár á fæti og fór í aðgerð.
Eigandi Diego setti færslu á Facebook-síðu sína þar sem hún greinir frá ástandi hans. „Diego verður næstu daga uppi á dýraspítalanum í góðum höndum,“ skrifar eigandinn meðal annars í færslu sinni.