Ríkisstjórn Líbanons sagði af sér í gær vegna hinnar gríðarlegu sprengingar sem varð á hafnarsvæði höfuðborgarinnar Beirút í síðustu viku. Nú hefur verið staðfest að minnst 220 létu lífið í sprengingunni og rúmlega sex þúsund slösuðust. Þá er rúmlega hundrað enn saknað og um tvö hundruð þúsund manns án heimilis.

Fráfarandi forsætisráðherra landsins, Hassan Diab, sagði í sjónvarpsávarpi að kenna mætti landlægri spillingu um sprenginguna. Hann sagðist styðja kröfur almennings um að þeir sem bæru ábyrgð á „þessum glæp“ yrðu dregnir fyrir dómstóla.

Diab sagðist hafa komist að því að spillingin væri æðri ríkinu. Stjórnmálastéttin notaði öll meðul til að koma í veg fyrir raunverulegar breytingar.

Heimildir Reuters-fréttastofunnar herma að fjöldi ráðherra hafi viljað segja af sér á fundi ríkisstjórnarinnar í gær en forsætisráðherrann ákveðið að öll stjórnin færi frá. Stjórn Diab var mynduð í janúar síðastliðnum og naut stuðnings Hezbollah-hreyfingarinnar og bandamanna hennar.

Um helgina hafði forsætisráðherrann tilkynnt að hann myndi fara fram á að þingkosningum yrði flýtt. Stjórnvöldum hefur verið mótmælt á götum úti undanfarna daga. Meðal annars voru öryggissveitir sem gættu þinghússins grýttar og beittu þær táragasi á mótmælendur.

Breski miðilinn The Guardian greindi frá því að afsögn ríkisstjórnarinnar hefði ekki dugað til að sefa mótmælendur. Enn hefði komið til átaka milli þeirra og öryggissveita í miðborg Beirút.

Helsta krafa mótmælenda er að alger uppstokkun verði gerð á stjórnkerfi landsins og að alþjóðleg óháð rannsókn fari fram á sprengingunni. Svara þurfi hver beri ábyrgð á því að svo hættuleg efni hafi verið geymd nálægt fjölmennustu hverfum höfuðborgarinnar árum saman.

Þá hafa ýmsir hvatt til hópafsagna þingmanna í því skyni að knýja fram nýjar kosningar. Til að svo verði þurfa 43 þingmenn að segja af sér en í gær höfðu sex þingmenn tilkynnt um afsögn sína.

Mikill ólga hefur verið í Líbanon undanfarin ár. Í lok síðasta árs þurfti þáverandi ríkisstjórn að segja af sér eftir mikil mótmæli gegn spillingu og efnahagslegri óstjórn. Staðan róaðist í kjölfar COVID-19 faraldursins en efnahagsástandið hélt áfram að versna og líta margir á sprenginguna í síðustu viku sem afleiðingar áralangrar spillingar og vanrækslu.