Lögmaður átján ára drengs sem var vísað úr landi í síðustu viku segir að hann sé enn á götunni og hafi gist í almenningsgörðum í Grikklandi. Hann segir það hrikalegt að sjálfstæðismenn klappi fyrir Jóni Gunnarssyni, dómsmálaráðherra á sama tíma og fólk er sent í erfiðar aðstæður í Grikklandi. Fjöldi félagasamtaka hafa fordæmt brottflutning hans eins og Unicef á Íslandi, Barnaheill og Rauði krossinn.
„Hann er á götunni. Ég er á fullu að reyna ganga frá undirbúningi dómsmáls gegn Íslenska ríkinu. Það eru ákveðnar pælingar í gangi að svo stöddu sem ég get ekki talað um. En ég geri ráð fyrir að formlega sé málinu lokið í huga stjórnvalda. Þeir eru búnir að losa sig við hann úr landinu og það verður ekkert gert fyrr en ég kem þessu dómsmáli í gang,“ segir Davor Purusic, lögmaður drengsins.
Davor segir að með dómsmálinu sé verið að leita að viðurkenningu að mál drengsins verði tekið til efnislegar meðferðar á sama hátt og þegar hann kom til landsins sem fylgdarlaust barn.
„Það snýst um það, að hann fái viðurkenningu, það eru til staðar dómafordæmi fyrir íslenskum dómstólum þar sem dómstólar hafa sagt að það eru ekki umsækjendur um alþjóðlega vernd sem eiga að gjalda fyrir það að stjórnvöld ákveða að fara í umfangsmiklar og tímafrekar rannsóknir. Sérstaklega í ljósi þess að Útlendingastofnun kláraði ekki rannsóknina á máli drengsins. Það bendir til þess að rannsóknin átti aldrei að fara fram, því hún var ekki eins mikilvæg og þeir töldu á meðan þeir voru að tefja málið,“ segir Davor.
Enn á götunni
Davor ræddi við strákinn fyrir tveimur dögum, en hann hefur verið í samskiptum við hann og vin hans undanfarna daga. Þeir eru á götunni og gista í almenningsgörðum að sögn Davor.
„Lagalega séð eru Grikkir búnir að veita þeim hæli, en eftir það er ekkert meira gert. Þannig að eina sem breytist fyrir þessa einstaklinga er að þeir eru ekki lengur í hættu að deyja í stríðsátökum, í staðinn eru þeir að deyja úr hungri eða kulda í öðru landi. Hver er munurinn fyrir þessa einstaklinga að vera áfram í heimaríkinu í hættu eða í Grikklandi í hættu?“ segir Davor.
„Við vitum öll að þetta fólk fær enga aðstöðu eða stuðning í Grikklandi, samt erum við tilbúinn að loka augunum fyrir því og horfa á sjónvarpsfréttir um tvö þúsund sjálfstæðismenn sem eru að drekka vín og borða hátíðarmat í sparifötunum. Það er alveg hrikalegt að horfa upp á stóran hóp manna standa á fætur og klappa fyrir einstaklingum eins og Jóni Gunnarssyni, í ljósi þess sem hann er að gera. En þetta er Ísland í dag,“ segir Davor.
Hann segir að þessu máli sé ekki lokið og hann ætli að gera allt sem hann getur fyrir drenginn.
„Þetta verður ekki látið kyrrt liggja,“ segir Davor.
Fékk að gista hjá vini vinar
Drengurinn, sem kallar sig Daniel, segir í samtali við Fréttablaðið að hann hafi fengið að gista hjá vini vinar síns í nokkra daga. Hann viti ekki hvert hann fari eftir það. Hann bíður þess að heyra hvort að mál hans verði tekið fyrir á Íslandi en er ekki vongóður um stöðuna.
Enn 39 leitað
Lögreglan flutti í síðustu viku fimmtán einstaklinga með leiguflugi til Grikklands. Samkvæmt tölfræði stoðdeildar hafa á þessu ári alls 116 farið úr landi. Lögregla fylgdi 73 þeirra og 43 fóru sjálf. Af þeim fóru 38 til Grikklands, þrettán sjálf.
Enn er stoðdeildin með á sínum verkefnalista 187 einstaklinga sem á að vísa úr landi. Þar af eru mál 98 einstaklinga í vinnslu.
Af þeim fara 25 til Grikklands en alls hafa 39 einstaklingar ekki fundist.
Mál sem eru enn skráð hjá Stoðdeild í dag eru alls 187, þar af:
„Í 89 málum skorti tilhlýðilegar ferðaheimildir, s.s. ferðaskilríki eða þá að ómöguleiki er að komast til tiltekinna lands, s.s. Íraks. Þau mál eru á bið en unnið er í því að afla ferðaskilríkja, sem og yfirstandandi viðræður við umrædd ríki að taka við því fólki,“ kemur enn fremur fram í tilkynningu frá ríkislögreglustjóra.