„Fundarstaðurinn var kirkjan Tutus í miðborg Jóhannesarborgar. Kirkjan var lítil og látlaus. Hann tók á móti mér ásamt ritara sínum. Hann hafði greinilega gott skopskyn þrátt fyrir að hann væri að kljást við afar alvarlegt stjórnmálaástand í landinu þar sem hann var í forystuhlutverki fyrir stjórnarandstöðuna. Það sem mér fannst einkenna Desmond Tutu erkibiskup þegar ég hitti hann var hvað hann var vinalegur og síhlæjandi,“ segir Hannes Heimisson, sendiherra í Stokkhólmi, sem tók viðtal við Tutu þegar hann var blaðamaður á DV árið 1985. „Ég fékk afskaplega hlýjar móttökur hjá honum.“

Tutu sem var einn helsti baráttumaðurinn gegn aðskilnaðarstefnunni í Suður-Afríku, lést á annan jóladag 90 ára að aldri. Hann hlaut meðal annars friðarverðlaun Nóbels árið 1984 og var náinn samstarfsmaður Nelsons Mandela, sem síðar varð forseti Suður-Afríku.

„Málefni Suður-Afríku og kynþáttaaðskilnaðarstefnan voru mál málanna á þessum tíma,“ segir Hannes. „Desmond Tutu var nýbúinn að fá friðarverðlaun Nóbels sem var mikil alþjóðleg viðurkenning á afleitri stöðu mála í Suður-Afríku þar sem aðskilnaðarstefna milli hvítra manna og svartra var í fullu gildi. Við á DV vildum fara á staðinn og kafa aðeins dýpra. Ég dvaldi þarna í þrjár vikur. Mér tókst að ná viðtali við Tutu fyrir tilstilli Hilmars Kristjánssonar, ræðismanns Íslands í Suður-Afríku. Annars hefði það aldrei gengið að ná viðtali við þennan fræga mann.

Fundarstaðurinn var kirkjan hans í miðborg Jóhannesarborgar. Kirkjan var lítil og látlaus. Tutu tók á móti mér ásamt ritara sínum. Hann hafði greinilega gott skopskyn þrátt fyrir að hann væri að kljást við afar alvarlegt stjórnmálaástand í landinu þar sem hann var í forystuhlutverki fyrir stjórnarandstöðuna.“

Hannes segir að Tutu hafi verið mjög forvitinn um Ísland. „Hann sagði mér að ég væri fyrsti Íslendingurinn sem hann hitti á ævi sinni. Hann vissi hins vegar töluvert um landið og að við hefðum valið Vigdísi Finnbogadóttur sem fyrsta kvenforsetann í heimi í lýðræðislegum kosningum. Honum þótti greinilega mikið til þess koma. Þá fann ég mjög jákvætt viðmót hans gagnvart Norðurlöndunum sem voru í fararbroddi gegn aðskilnaðarstefnunni í Suður-Afríku á þessum tíma og augljóst að það vissu menn vel í Suður-Afríku. Tutu sýndi mér kirkjuna og sagði mér ítarlega frá safnaðarstarfinu, en kirkjan hans var í raun miðpunkturinn fyrir stjórnarandstöðuna þar sem menn komu reglulega saman og efldu andann,“ segir Hannes. „Hann talaði um hvað það væri spennandi að hitta Íslending og gekk um og sýndi mig og sagði að ég væri mjög sjaldgæft fyrirbæri og hló dátt.“

Um leið og Tutu var forystumaður innan kirkjunnar var hann í forystu fyrir stjórnarandstöðuna en ekki mátti fangelsa kirkjunnar menn eins og hann, þannig að hann var friðhelgur. Öðru máli gegndi um Nelson Mandela sem síðar varð forseti Suður-Afríku, hann var í fangelsi á þessum tíma, að sögn Hannesar.

„Ég hitti doktor Motlana, heimilislækni Nelsons, og Winnie Mandela á veitingahúsi og borðaði með honum til þess að reyna að afla fregna um Nelson Mandela, en það var lítið upp úr því að hafa, því miður. Á þessum tíma var Mandela einangraður í fangelsi og gat ekki haft mikil samskipti við umheiminn. En ég fann að baráttan var sterk og lifandi og skynjaði mikinn baráttuhug meðal blökkumanna,“ segir Hannes.

„Ég náði líka fundi með Louis Nel, innanríkisráðherra landsins og talsmanni hvítu minnihlutastjórnarinnar, sem hafði verið gagnrýnd harðlega fyrir miskunnlausar aðgerðar gegn mótmælendum og mannréttindabrot.

Ég fann mikið fyrir því hvað spennan var mikil þarna. Ég hafði verið varaður við því að vera hvítur maður einn á ferli í Jóhannesarborg sem þótti ekki öruggur staður um þessar mundir. Blökkumenn máttu aðeins vinna inni á svæðum hvítra en þurftu að búa í aðskildum hverfum fyrir blökkumenn eins og Soweto og Alexandríu, þar sem fátækt var yfirleitt mikil og mjög róstusamt,“ segir Hannes Heimisson sendiherra.