Fimbulkuldi hefur einkennt það sem af er desember og allt bendir til þess að kuldinn sé ekki á förum fyrr en í fyrsta lagi á nýju ári. Ef fram fer sem horfir gæti þessi desembermánuðir orðið sá kaldasti frá 1973.

Að sögn Einars Sveinbjörnssonar veðurfræðings hefur verið samfellt frost í Reykjavík frá 7. desember og á Akureyri frá 4. desember. Samkvæmt spám er meðalhiti síðustu níu daga ársins um mínus fimm gráður í Reykjavík en um sjö til átta stiga frost á Akureyri.

Þá mega landsmenn í flestum landshlutum búast við einhverri snjókomu næstu daga með áframhaldandi frosti. Ekki er útlit fyrir aftök eða stórhríð.

Skammt stórra högga á milli

Einar segir veðurfarið síðustu tvo mánuði hafa verið sérstakt en þó lýsandi fyrir breytileikann í vetrarveðráttunni þar sem stundum geti verið skammt stórra högga á milli.

„Við þekkjum það mjög vel þegar það snögg hlánar hér eftir kuldatíma hvað það getur gerst á skömmum tíma. Þetta er bara partur af þeim breytileika en engu að síðu er þetta sérstakt að það leggist saman svona mánuðir, heilir almanaksmánuðir, alveg svona í sitthvora áttina,“ segir Einar jafnframt.

Veðrið í dag.

Sveiflur og sviptingar

Einar segir óvanalegt að veturinn í heild sinni frá nóvember til mars sé með einhver ákveðin einkenni allan tímann. Veðurfar á þessum árstíma einkennist af sveiflum og sviptingum.

„Svo er alltaf eitthvað eitt sem verður minnisstæðast, einhver ákveðinn kafli,“ segir Einar og bætir við að þessi langi kuldakafli sem stendur nú yfir sé áhugaverður það hafi ekki beint verið frosthörkur en þó kalt.

Aðspurður um veðrið fyrstu daga nýja ársins segir Einar ekkert fast í hendi hvað það varðar. „Spálíkön rembast alltaf við það í lok spátímans að rétta hlutina af, færa þá nær meðaltali, og það er engin breyting á því í langtímaspám núna. Samkvæmt því ætti að hlýna í janúar en ef við skoðum spár tíunda desember þá átti líka að hlýna um jólin,“ segir Einar og ítrekar að ekkert sé fast í hendi en það komi að því að tíðarfarið breytist.

Veðrið á morgun, aðfangadag.