Þótt líta megi á kosningarnar í Bandaríkjunum í gær sem varnarsigur Demókrata eru þó vissir ljósir punktar í myndinni fyrir Repúblikana, sér í lagi í Flórída.

Ron DeSantis, ríkisstjóri Flórída, vann afgerandi endurkjör í ríkisstjórakosningum þar auk þess sem Marco Rubio hélt sæti sínu á öldungadeildarþinginu. Þykir þetta til marks um að Flórída, sem jafnan hefur verið talið „sveifluríki“ í bandarískum kosningum, sé í auknum mæli farið að halla sér að Repúblikönum.

Gjarnan er litið á DeSantis sem vonarstjörnu Repúblikanaflokksins og sem vænlegt forsetaefni í kosningum ársins 2024. Aðdáendur hans virtust gera sér grein fyrir þessu, því við sigurræðu hans á kosninganótt kyrjuðu sumir þeirra „Tvö ár í viðbót!“ þótt kjörtímabilið sé fjögur ár því ef DeSantis býður sig fram til forseta og vinnur árið 2024 verður hann að sjálfsögðu að segja af sér ríkisstjóraembættinu.

Donald Trump, fyrrverandi Bandaríkjaforseti, kann að hugsa DeSantis þegjandi þörfina. Trump hefur dregið litla dul á áhuga sinn á nýju forsetaframboði árið 2024 og hefur brugðist illa við hugmyndum um samkeppni um útnefningu Repúblikanaflokksins.