Johny Depp hefur neitað því að hafa beitt fyrrverandi eiginkonu sína, Amber Heard, heimilisofbeldi og segir það hafa verið hana sem beitti ofbeldi í þeirra sambandi. BBC greinir frá.

Í nýlegu þingskjali sem er partur af kærumáli hans gegn henni vegna ærumeiðinga kemur fram að hann ásakar hana um að hafa málað á sig marbletti fyrir réttarhöld. Hún kærði hann fyrir heimilisofbeldi í maí 2016.

„Ég hef neitað ásökunum Heard síðan hún kom fyrst fram með þær í maí 2016 þegar hún gekk inn í réttarsal til að hljóta tímabundið nálgunarbann, búin að mála á sig marbletti sem vitni og öryggismyndavélar sýna að hún var ekki með neinn dag vikunnar á undan,“ lét Depp hafa eftir sér.

„Það var hún sem var gerandinn og ég sem var fórnarlambið,“ hélt Depp áfram. „Undir áhrifum lyfseðilsskyldra amfetamínlyfja og annarra eiturlyfja blönduðum við áfengisneyslu framdi Heard óteljandi brot á mér sem í sumum tilfellum ollu mér alvarlegum skaða á líkama.“

Depp og Heard byrjuðu saman eftir að hafa kynnst árið 2011 við tökur myndarinnar The Rum Diary. Þau giftu sig í Los Angeles í febrúar 2015 og skildu síðan ári síðar.