Þing­menn Demó­krata innan öldunga­deildarinnar kynntu í gær 3,5 billjóna Banda­ríkja­dala fjár­hags­á­ætlun sem er ætlað að fjár­magna stefnu­mál Joes Biden Banda­ríkja­for­seta meðal annars á sviði opin­berrar þjónustu. Vonir eru bundnar við að hægt verði að koma á­ætluninni í gegn á næstu vikum.

Chuck Schumer, leið­togi Demó­krata innan öldunga­deildarinnar, sagði í gær­kvöldi að ef á­ætlunin næði í gegn væri um að ræða ein­hverja víð­feðmustu að­stoð til banda­rískra fjöl­skyldna í margar kyn­slóðir. Mikil vinna væri þó enn fram undan við að koma á­ætluninni í verk og sann­færa alla þing­menn Demó­krata.

Ekki allir á sama máli

Að því er kemur fram í frétt Politico um málið þarf að­eins ein­faldan meiri­hluta þing­manna til að koma málinu í gegnum þingið til að koma í veg fyrir mál­þóf, líkt og gert var með 1,9 billjóna dala efna­hags­pakkann gegn CO­VID-19 sem Demó­kratar lögðu fram síðast­liðinn mars.

Allir öldunga­deildar­þing­menn Demó­krata, auk ó­háðra, þurfa að greiða at­kvæði með á­ætluninni til að hún fari í gegn. Skiptar skoðanir voru þó innan flokksins um á­ætlunina en Berni­e Sanders, for­maður fjár­hags­nefnd öldunga­deildarinnar, vildi til að mynda að á­ætlunin myndi kveða á um sex billjónir á meðan þing­menn meira til miðju gerðu ráð fyrir minna fjár­magni.

Verða við áætlun Bidens

Sam­hliða á­ætluninni er gert ráð fyrir 600 milljarða dala fjár­hags­á­ætlun fyrir upp­byggingu inn­viða ríkisins. Demó­kratar og Repúblikanar vinna enn að því að ná saman um þá á­ætlun en ó­líkt hinni þurfa að minnsta kosti 10 þing­menn Repúblikana að greiða at­kvæði með Demó­krötum til að koma henni í gegn.

Saman­lagt er um að ræða 4,1 billjóna dala á­ætlun sem er í sam­ræmi við til­lögur Bidens frá því fyrr á árinu. Að því er kemur fram í frétt New York Times Biden mun í dag funda með Demó­krötum vegna á­ætlunarinnar í von um að hægt verði að leggja fram fjár­laga­frum­varp, sem þarf þá einnig að fara í gegnum full­trúa­deild þingsins.