Erlendir ferðamenn á Norðurlandi eru farnir að láta sjá sig í sama mæli og fyrir tíma heims­farald­ursins, að sögn Arnheiðar Jóhannsdóttur, framkvæmdastjóra Markaðsstofu Norðurlands.

Þetta er bara frábært, viðspyrnan er það góð,“ bætir hún við og segir greinilegt að uppbygging ferðamannastaða í landshlutanum sé að skila sér í umtali og orðspori út fyrir landsteinana og nefnir þar til sögunnar Demantshringinn um Mývatn, Dettifoss, Hljóðakletta, Ásbyrgi og Húsavík, en uppbyggður og malbikaður vegur tengir nú loksins þessar kunnu náttúruperlur.

„Umferðin á þessum slóðum hefur aukist til muna,“ segir Arnheiður og nefnir svo annan ferðamöguleika til sögunnar. „En þar á ég við Norðurstrandarleiðina, sem við höfum markaðssett sérstaklega á undanförnum misserum, en þar keyra menn utan alfaraleiðar um strandvegina alla sem hlykkjast frá Hvammstanga í vestri að Bakkafirði í eystri, fyrir annes og inn með víkum og fjörðum.“

Arnheiður Jóhannssdóttir, hjá Markaðsstofu Norðurlands.
Mynd/AntonBrink

Arnheiður segir þessa vegferð vekja sérstaka athygli þeirra ferðamanna, erlendra og íslenskra, sem vilji ferðast hægt í fámenni. „Þessi ferðaupplifun, að njóta fremur en þjóta í náttúrukyrrðinni sem er ekki uppfull af öðrum ferðamönnum, er að verða æ vinsælli,“ segir hún.

Arnheiður segir haustið líta mjög vel út í bókunum og á von á enn meira ferðaári næsta sumar þegar þýska flugfélagið Condor hefur áætlunarflug á milli Frankfurt og Akureyrar og Egilsstaða frá maí fram í október. Einnig megi búast við fjölda breskra ferðamanna gangi reglubundið flug á vegum Niceair til og frá Lundúnum eftir, en félagið leitar nú leiða til að fá flugheimildir milli London og Akureyrar.