Svokallað delta-afbrigði COVID-19, sem fyrst fannst á Indlandi, er farið að smitast manna á milli í Svíþjóð og greinist ekki aðeins á landamærunum. Í síðustu viku greindust mörg tilfelli, einkum í Värmland og Blekinge en áður höfðu einungis örfá tilfelli delta-afbrigðisins greinst innanlands.
Britta Björkholm, yfirmaður sóttvarna hjá stofnuninni, segir að ljóst sé að útbreiðsla delta-afbrigðisins sé að aukast. Meira en milljón COVID-19 smit hafa greinst í Svíþjóð frá upphafi faraldursins og tæplega 15 þúsund látist af þeim sökum.

Ali Mirazami, prófessor í smitsjúkdómafræðum við Karolinska Institutet, segir að afbrigðið sé um 40 til 70 prósent meira smitandi en önnur af COVID-19. „Það er ekkert sem segir að vírusinn geti ekki tekið yfir. Sú áhætta er til staðar,“ segir hann í samtali við sænska ríkissjónvarpið SVT.
Hann segir að rannsóknir bendi til þess að virkni bóluefna gegn afbrigðinu sé ekki jafn góð og gegn öðrum. „Við sjáum ljósið fyrir enda ganganna en við erum ekki enn hólpin,“ segir Mirazami og mikilvægt sé að fólk gleymi sér ekki og fylgi áfram sóttvarnatilmælum yfirvalda.
Samkvæmt Alþjóðaheilbrigðisstofnuninni (WHO) hefur delta-afbrigðið greinst í minnst 74 löndum. Það hefur greinst á landamærunum hér en samfélagssmit afbrigðisins ekki. Í Bretlandi eru um 90 prósent nýrra smita af delta-afbrigðinu en um þessar mundir greinast um átta þúsund smit þar á degi hverjum. Boris Johnson forsætisráðherra tilkynnti í gær að afléttingu samkomutakmarkana og sóttvarnaaðgerða hefði verið frestað á Englandi um mánuð, fram í seinni hluta júní.