Frönsku hjónin Sigride og Jean-Luc Delavelle luku fimmtán daga ferð sinni um Ísland í Laugardalnum í gær. Náttúran og fuglalífið snart þau djúpt.

„Þetta hefur verið dásamlegt,“ segir Sigride Delavelle frá Frakklandi einlæglega um dvöl sína og eiginmannsins Jean Luc hér á Íslandi.

Jean Luc og Sigride búa í Lille í Frakklandi en komu til Íslands fyrir hálfum mánuði og hafa verið á faraldsfæti síðan. Þau vildu glöð deila ferðasögu sinni með útsendurum Fréttablaðsins sem rákust á hjónin á tjaldstæðinu í Laugardal í gær. Þau afsökuðu litla enskukunnáttu. Sigride dró fram Íslandskort og breiddi úr því á litlu borði.

„Við fórum fyrst hingað,“ segir Sigride og setur fingurinn á þjóðgarðinn á Þingvöllum áður en hún dregur hann að Gullfossi. „Svo fórum við hingað,“ bætir hún við og fingurinn er kominn út í Vestmannaeyjar. Augljóst er á þeim hjónum að það var áhrifarík heimsókn.

För þeirra lá síðan til Víkur í Mýrdal. „Við stoppuðum nú bara eina nótt þar,“ svarar Jean Luc spurður hvernig þeim hafi litist á sig í Vík. „Það rigndi svo svakalega mikið,“ bætir hann við og hjónin brosa afsakandi.

Delavelle-hjónin segja fugla á Íslandi einstaka þar sem þeir séu óttalausir. Hér má líta fjölskrúðugt fuglalíf á Seltjarnanesinu.
Mynd/ValgarðurGíslason

Frakkarnir héldu áfram ferð sinni um Suðurland. Þau gistu nokkrar nætur í þjóðgarðinum í Skaftafelli og gengu þar um náttúruna og óku síðar á ferðabíl sínum austur að Jökulsárlóni sem einmitt var á sérstakri mynd á landakortinu.

Sigride er kennari í heimabæ sínum og Jean Luc er fuglafræðingur og kveðst starfa mikið með ungu fólki og fræða það um fugla úti í náttúrunni. Og nú dregur Jean Luc fram bók og tekur að benda á ýmsar tegundir sem hann hefur ekki séð í heimalandi sínu nema kannski í mýflugumynd er þeir stoppa í nokkra klukkutíma á leið sinni sunnan að og norður að Íslandsströndum.

„Fuglarnir hér eru svo spakir og óttalausir. Í Frakklandi eru veiðimenn á hverju strái,“ útskýrir Jean Luc og hermir eftir manni að skjóta úr byssu. Hann bendir síðan á mynd af hrossagauki sem hann segist hafa séð og ekki síst heyrt í hér á Íslandi. „Það er magnaður fugl,“ segir hann og gefur frá sér hið einkennandi hljóð sem hrossagaukar mynda með stélfjöðrum sínum á steypiflugi.

Sigride og Jean Luc sneru aftur frá Jökulsárlóni og óku þá rakleitt á Snæfellsnes þar sem þau vörðu nokkrum dögum og segja þá standa upp úr á ferðalaginu. „Þar var ótrúlega fallegt,“ eru þau hjónin sammála um.

Þessari Íslandsferð hjónanna frá Lille, sem var sú fyrsta, lauk í gærkvöldi. En kannski snúa þau aftur síðar. „Það ætla ég rétt að vona,“ svarar Sigride að minnsta kosti er þau hjónin stilla sér upp fyrir myndatöku. n