Sýrland

Deilt um tálmanir á rannsókn

Rússar sagðir hrófla við árásarvettvangi í Douma. Segja árásina sviðsetta og neita alfarið ásökunum um að þeir hindri rannsókn Efnavopnastofnunarinnar. Rannsakendur fengu ekki að fara inn á svæðið í gær.

Íbúar í Douma standa fyrir framan sundursprengda byggingu í bænum. Fréttablaðið/AP

Rússar voru í gær sakaðir um að hafa mögulega hróflað við vettvangi meintrar efnavopnaárásar í Douma í Sýrlandi. Þeir neituðu því alfarið. Stofnunin um bann við efnavopnum (OPCW) fundaði í Haag í gær. Fundurinn var lokaður en samkvæmt heimildum Reuters lét Kenneth Ward, fulltrúi Bandaríkjanna, ásakanirnar falla þar.

„Okkur skilst að Rússar hafi mögulega heimsótt árásarvettvanginn. Við höfum áhyggjur af því að þeir gætu hafa hróflað við vettvangi í því skyni að tálma rannsókn OPCW,“ sagði Ward.

Sergei Lavrov, utanríkisráðherra Rússlands, hafnaði ásökunum Wards í gær. „Ég get ábyrgst það að Rússland hefur ekki hróflað við vettvangi.“ Jafnframt sagði hann enn á ný að engum efnavopnum hefði verið beitt í Douma. Rússar hafa áður sagt enga árás hafa átt sér stað, hafa jafnvel sagt að Bandaríkjamenn eða Bretar hafi sviðsett árásina.

„Allar þær sannanir sem leiðtogar Frakklands, Bretlands og Bandaríkjanna hafa vísað í byggjast á fjölmiðlaumfjöllun og samfélagsmiðlum. Þetta átti sér ekki stað. Það sem gerðist var það sviðsetta,“ sagði Lavrov í gær. Ráðherrann sagði undarlegt að loftárásir hefðu verið gerðar daginn áður en rannsakendur áttu að hefja vinnu sína á svæðinu.

Hin meinta árás hefur sett samskipti Vesturlanda við Rússland í bál og brand. Bandaríkin, Frakkar og Bretar gerðu á laugardag loftárásir á skotmörk í Sýrlandi, sem talin voru tengjast efnavopnaframleiðslu, -þróun og -notkun stjórnarhers Bashars al-Assad forseta. Rússar, Sýrlendingar og Íranar fordæmdu síðan árásina.

Bandaríkjastjórn sagði 105 eldflaugum hafa verið skotið og að Sýrlendingar hefðu ekki náð að skjóta neina þeirra niður. Rússar sögðu hins vegar að 71 eldflaug hefði verið skotin niður. Skotmörkin voru rannsóknarsvæðið í Barzeh, þar sem Bandaríkjamenn segja þróun og framleiðslu á efnavopnum fara fram, og tvö önnur framleiðslusvæði í Him Shinshar.

Vitni á vettvangi í Douma hafa greint frá því að fórnarlömb meintrar árásar hafi lyktað af klór og verið með þykka froðu í munni. Bandaríkjamenn hafa sagt afgerandi sannanir vera fyrir því að klórgasi hafi verið beitt. Möguleiki sé á að saríngasi hafi verið beitt.

Rannsókn OPCW á vettvangi var frestað í gær og var ekki hafin þegar þessi frétt var skrifuð. Að sögn sænska fulltrúans á fundinum sögðu Rússar og Sýrlendingar rannsakendum að ekki væri hægt að tryggja öryggi á vettvangi. Breski fulltrúinn sagði það óboðlegt, þörf væri á samstarfi Rússa og Sýrlendinga og að óhindraður aðgangur væri nauðsynlegur. Dmítrí Peskov, talsmaður Rússlandsforseta, sagði af og frá að það væri Rússum að kenna að rannsókn tefðist.

OPCW hefur áður komist að því, í samstarfi við Sameinuðu þjóðirnar, að Assad-liðar hafi oftsinnis beitt efnavopnum undanfarin ár. Meðal annars í fyrra þegar nærri hundrað fórust í saríngasárás á Khan Sheikhoun.

Athugasemdir

Auglýsing
Auglýsing

Tengdar fréttir

Sýrland

107 á sjúkra­hús eftir eitur­efna­á­rás

Sýrland

Hjálpar­gögn til Rukban í fyrsta skipti í tíu mánuði

Sýrland

Ekki frekari aðgerðir í Idlib

Auglýsing

Nýjast

Aug­lýsa eftir verslunar­manni í Ár­nes­hreppi

Fyrir­skipa rann­sókn á hvernig 737-vélarnar fengu flug­leyfi

Fram­sýn slæst í för með VR og Eflingu

Síbrotamaður áfram í gæsluvarðhaldi

„Mér fannst ég gríðar­lega mis­heppnuð“

Fimmtíu fastir um borð í logandi farþegaflugvél

Auglýsing