Stytting á starfstíma leikskóla Reykjavíkurborgar var samþykkt í skóla- og frístundaráði í vikunni og verður málið á dagskrá borgarráðs í næstu viku. Eins og staðan er í dag er leikskólum lokað klukkan 17.00, en ef tillagan verður samþykkt í borgarráði verður þeim lokað klukkan 16.30.

Tillagan byggir á niðurstöðum skýrslu stýrihóps um umbætur og leikskólastarf frá því í desember. Þar kemur fram að 92 prósent leikskólabarna séu sótt fyrir klukkan 16.30 á daginn. Hefur verið í umræðunni meðal leikskólakennara og stjórnenda að vistunartími barna hafi verið að lengjast undanfarin ár.

„Leikskólakennarar hafa haft áhyggjur af þessari þróun og telja að langur dvalartími, í erilsömu umhverfi í stórum hópi barna, í 8,5 til allt að 9,5 stundir á dag sé of mikið og komi niður á þroska s.s. málþroska og líðan barna sem í auknum mæli sýni merki kvíða og streitu,“ segir í skýrslunni.

Gert er ráð fyrir að breytingin taki gildi 1. apríl næstkomandi vegna dvalarsamninga sem eru nú þegar í gildi. Þá munu foreldrar geta sótt um aðlögunarfrest til 1. ágúst vegna sérstakra aðstæðna.

Alls eru 5.202 börn í leikskólum borgarinnar. Þar af eru 937 börn með dvalarsamning til klukkan 16.30 eða síðar á daginn, að meðaltali er um helmingur þeirra sóttur fyrir þann tíma. Þrjú prósent, eða 152 börn að meðaltali, eru sótt eftir klukkan 16.45 á daginn.

Nokkur munur er á opnunartímum um landið. Leikskólar í Hafnarfirði, á Seltjarnarnesi, Mosfellsbæ og Garðabæ eru opnir til klukkan 17. Þeim er lokað klukkan 16.30 í Kópavogi og Reykjanesbæ, þá er þeim lokað klukkan 16.15 á Akureyri.

Skúli Helgason, formaður skóla- og frístundaráðs, segir að verið sé að bregðast við ábendingum fagfólks og skorti á nýliðum. „Markmiðið er að minnka álagið, bæði fyrir börnin og starfsfólkið, og geta haldið uppi góðu og faglegu starfi í leikskólunum,“ segir Skúli.

Eyþór Arnalds, oddviti Sjálfstæðisflokksins, segir að breytingarnar komi til með að bitna á barnafólki og þá helst konum. „Við munum leggjast gegn þessu á öllum stigum. Meirihlutinn hefur misst jarðsamband með því að velja að spara með þessum hætti,“ segir Eyþór.

Hildur Björnsdóttir, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, segir skýringu á því hvers vegna vistunartími sé lengri í dag en áður. „Ástæða þess að börn eru ekki lengur fjóra til fimm tíma á leikskóla er að konur hafa sótt fram á vinnumarkaðinn. Ég óttast að skerðing á leikskólaþjónustu geti leitt til bakslags í jafnréttisbaráttunni.“

Skúli hafnar því að breytingarnar séu stórar. „Við höfum eytt miklum tíma í það með leikskólastjórum að ræða hvort það séu einhverjir hópar sem færu líklega illa út úr þessu. Það er mjög skýrt mat þeirra að svo sé ekki.“