Nokkur ólga er í samfélaginu eftir mistök við atkvæðatalningu í Norðvesturkjördæmi. Lögbrot voru framin við geymslu kjörgagna.

Karl Gauti Hjaltason, þingmaður Miðflokksins, hefur kært málið til lögreglu. Lögreglustjórinn á Vesturlandi staðfestir móttöku kærunnar. Karl Gauti segist kæra til að upplýst verði um öll atvik, svo sem um meðferð gagna og hverjir tóku ákvörðun um að lokatölur væru komnar og svo framvegis. „Ég tel að lokatölur eigi að standa og endurtalningin sé ógild,“ segir Karl Gauti.

Birgir Ármannsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins og formaður kjörbréfanefndar Alþingis á liðnu kjörtímabili, segir að málið eigi sér engin fordæmi. Ef álitamál sé hvort þingmenn séu réttkjörnir komi til afskipta kjörbréfanefndar. Nefndin gefi álit sem fari svo í atkvæðagreiðslu í þinginu. Ef alvarleg vafamál yrðu óleyst kæmi jafnvel til greina að kalla þingið sérstaklega saman til skamms tíma.

Fimm þingmenn ýmist duttu út eða komust inn eftir endurtalninguna. Yfirkjörstjórn Suðurkjördæmis ákvað einnig í gær að endurtalning skyldi fara fram eftir að fjórir flokkar höfðu óskað þess. Björn Leví Gunnarsson, þingmaður Pírata, sem hefur átt sæti í kjörbréfanefnd, telur þó að engin heimild sé í lögum til þeirrar endurtalningar. Fyrri tölur úr Norðvesturkjördæmi eigi að gilda. Yfirkjörstjórn hafi fyrir seinni talninguna verið búin að skila af sér niðurstöðunum til landskjörstjórnar og þar með sé engin lagaheimild til endurtalningar.

Ólafur Þ. Harðarson prófessor telur fráleitt að kjósa aftur í Norðvesturkjördæmi á grunni þess að fyrri kosning sé ónýt. Engar líkur séu á að úrslitin séu ekki rétt þrátt fyrir hnökra. Fræðilegur möguleiki sé að Alþingi muni úrskurða kosningu þingmanna í kjördæminu ógilda en líkur á því séu afar litlar.

Spurður um afleiðingar af auknu vantrausti almennings gagnvart framkvæmd þingkosninga, segir Ólafur það skaðlegt ef traustið dvín. En eins og hann sjái þetta mál sé engin ástæða til að vantreysta því að kosningar á Íslandi fari fram með heiðarlegum hætti.

Ingi Tryggvason, formaður yfirkjörstjórnar í Norðvesturkjördæmi, sér enga ástæðu til sérstakra viðbragða, spurður hvort hann ætli að axla ábyrgð á mistökunum svo sem að innsigli kjörgagna hafi ekki verið fyrir hendi milli talninga. Öryggismyndavélar á talningarstað sýni að þótt svæðið hafi verið yfirgefið í nokkra klukkutíma hafi enginn farið inn í rýmið þar sem gögnin hafi verið geymd.

Helga Vala Helgadóttir, þingmaður Samfylkingar sem sat í kjörbréfanefnd síðasta kjörtímabil, segir að ef kosið yrði í Norðvesturkjördæmi á ný myndi heildarniðurstaða kosninganna á landsvísu ýta undir líkurnar á að þeir sem greiði atkvæði í annað sinn myndu kjósa strategískt í seinna skiptið, en ekki samkvæmt eigin sannfæringu. Ólíklegt sé að flokkar sem ekki náðu framgangi í kosningunum fengju atkvæði á ný sem dæmi. Jafnvel væri því eðlilegra að kjósa á ný í öllum kjördæmunum fremur en aðeins einu kjördæmi.