Aðalmeðferð í máli Kára Orrasonar, 22 ára Reykvíkings, fór fram í Héraðsdómi Reykjavíkur í gær. Kára er gefið að sök að hafa óhlýðnast fyrirmælum lögreglu í anddyri dómsmálaráðuneytisins í apríl í fyrra, er hann tók þátt í mótmælum samtakanna No Borders, sem kröfðust fundar með ráðherra um málefni hælisleitenda.

Tekist var á milli verjanda og fulltrúa ákæruvalds um hvort mótmælin gætu talist friðsöm eða ekki, notuðu mótmælendur trommur en beittu ekki ofbeldi. Þá greindi þá einnig á um hvort Kári hefði haft tækifæri til að bregðast við fyrirmælum lögreglu fyrir handtöku.

Helgi Þorsteinsson, verjandi Kára, sagði að lögregla hefði verið með það að markmiði að „kenna þeim lexíu“, þar sem önnur úrræði hefðu staðið þeim til boða en að handtaka mótmælendurna.

Þá sagði stjórnandi á vettvangi að hópurinn hefði mótmælt á sama hátt nokkra daga á undan, í þetta skiptið hefði verið ákveðið að handtaka og ákæra þá sem færu ekki eftir fyrirmælum. Dómari stöðvaði spurningar sem sneru að því hvaða ákvarðanir hefðu verið teknar fyrir handtökurnar.

Sjö lögreglumenn báru vitni og voru sammála um að mótmælendurnir, sem sátu á gólfi anddyrisins með hendur hlekkjaðar saman, hefðu ítrekað verið beðnir um að fara. „Þetta var margítrekað eins og alltaf. Ég hef verið sakaður um að vera eins og biluð grammófónplata,“ sagði stjórnandi á vettvangi.

Vitni verjanda, sem var í anddyrinu til að sýna samstöðu með mótmælunum, sagði að lögreglumenn hefðu verið fullir af heift.

Kári neitaði sök og sagði að hann og aðrir mótmælendur hefðu verið beðnir um að fara, en lögregla beðin um að útskýra fyrirmælin á ensku. Þá hefði ekki gefist mikill tími til að fara eftir fyrirmælunum.

Farið er fram á að Kári greiði 10 þúsund króna sekt, verjandi segir að verði Kári dæmdur sekur séu þeir fimm klukkutímar sem hann var í haldi lögreglu næg refsing.