Hart var tekist á í kappræðum stjórnmálaleiðtoga á RÚV í kvöld. Þar stigu á stokk leiðtogar allra þeirra tíu framboða sem vita er að bjóði fram í Alþingiskosningunum 25. september.
Kappræðurnar hófust á efnahagsmálunum og líkt og við mátti búast voru formenn stjórnarflokkanna þriggja ánægðir með aðgerðir stjórnarinnar í Covid-faraldrinum. Þessu voru þó margir stjórnarandstæðingar ekki sammála.
„Heimilin eiga það skilið og það er engin þörf á afkomubætandi aðgerðum,“ sagði Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins. Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, oddviti Pírata í Suðvesturkjördæmi, sagði að hugtakið „afkomubætandi aðgerðir“ væri einungis nýyrði yfir skattahækkanir og niðurskurð.
Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, sagði að flokkur hans vildi setja eignaskatt á ríkustu tvö prósent landsmanna og hækka veiðigjöld til að tryggja rekstur velferðarkerfisins.
Vill að kjósendur fái það sem þeir eiga fyrir
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, sagði tillögur flokksins ganga út á að skila því til kjósenda sem þeir ættu fyrir. „Út á það ganga þessar tillögur, þær snúast um réttlæti og tækifæri fyrir alla. Að skapa jákvæða hvata fyrir samfélagið,“ sagði hann.

Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, sagði ríkissjóð standa vel þökk sé aðgerðum stjórnar hennar. Ekki væri þörf á tekjuöflun með skattahækkunum heldur þyrfti að gera skattkerfið réttlátt.
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar, minnti á að flokkur hennar hefði stutt við ríkisstjórnina í aðgerðum hennar vegna faraldursins. Það þyrfti að auka hér hagvöxt umfram það sem var árið 2019, áður en hann hófst.
Gunnar Smári Egilsson, formaður framkvæmdastjórnar Sósíalistaflokksins, sagði markmið flokksins að leiðrétta þær breytingar sem gerðar hefðu verið á skattkerfinu á undanförnum áratugum sem hann sagði hafa velt skattbyrðinni á almenning. Til dæmis ættu þeir sem fá greidd lágmarkslaun ekki að greiða tekjuskatt.
Ljóst að sýnin væri mismunandi
Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins, sagði að bersýnilegt væri að leiðtogar flokkanna hefðu mismunandi sín á stöðu landsins. Flokkur hans vildi einungis lofa einum nýjum útgjaldalið - frístundastyrkur til allra foreldra upp á 60 þúsund krónur. „Umræðan um hækkun skatta og niðurskurð er bara tóm vitleysa,“ sagði hann.
Inga Sæland, formaður Flokks fólksins, sagði það efst á lista flokksins að hækka lágmarksframfærslu í 350 þúsund krónur, án nokkurra skatta eða skerðingar. Hún sagði aukaatriði hvernig þetta yrði fjármagnað, hækka mætti veiðigjöld og skatta á banka.
Glúmur Baldvinsson, frambjóðandi Frjálslynda lýðræðisflokksins, sagði ljóst að staða ríkissjóðs væri erfið og laga mætti hana með hærri leigugjald af útgerðinni.
Þórhildur Sunnar Ævarsdóttir, oddviti Pírata í Suðvesturkjördæmi, sagði ríkisstjórnarflokkana fasta í fortíðinni og ekki ætti að bregðast við kreppu með niðurskurði í opinberum rekstri. Auka ætti kraftinn frekar með lántökum sem væru hagstæðar núna.
