Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar, og Bjarni Jónsson, þingmaður Vinstri grænna og formaður utanríkismálanefndar, tókust á um varnarmál Íslands í Silfrinu í dag. Komu þar sér í lagi fram ólíkar skoðanir um framtíðarsamband Íslands við Evrópusambandið og hvort tímabært sé að taka umræðu um mögulega ESB-aðild upp á ný á tíma stríðsins í Úkraínu.

„Varðandi ESB sem slíkt, við erum náttúrlega í margþættu samstarfi við þau, en tal um ESB-aðild á þessum tímapunkti… ja, það eru hræðilegir atburðir að eiga sér stað og þeir hafa lítið með aðild Íslands að ESB að gera eða ekki,“ sagði Bjarni. „Ég held við ættum frekar að einbeita okkur að ógnum sem við verðum að sameinast um frekar en að dreifa umræðunni eða jafnvel að slá keilur á einhverjum öðrum hlutum sem mér finnst ekki relevant í umræðunni.“

Þorgerður Katrín þvertók fyrir að umræða um mögulega ESB-aðild Íslands væri stöðunni óviðkomandi. Benti hún þar á að leiðtogar í Evrópu hefðu gert sig líklega til að taka sér stærra hlutverk í hernaðar- og varnarmálum álfunnar og sagði að Bandaríkin kæmu ekki til með að leggja áherslu á varnir Evrópu um aldur og ævi. Öryggishagsmunir Bandaríkjamanna beindust í auknum mæli austur á bóginn, að Kínahafi, og mörg Evrópuríki væru farin að auka eigin hernaðarútgjöld til að bregðast við breyttum aðstæðum.

Þá taldi Þorgerður verða að fara fram hagsmunamat í öryggismálum, enda væri varnarsamningur Íslendinga við Bandaríkin ekki fullkominn. „Mér finnst það mjög varasamt og ég hræðist aðeins hvernig Bjarni Jónsson og Vinstri grænir eru að tala núna um varnarmál. Netöryggi og netárásir eru ekki inni í varnarsáttmálum með ótvíræðum hætti. Það er heldur ekki með ótvíræðum hætti tekið á því hvernig Bandaríkjamenn ættu að bregðast við ef það yrði ráðist á okkar innviði eða okkar samfélag.“

Í þættinum var Bjarni einnig spurður hvort Vinstri grænir hygðust breyta afstöðu sinni til Atlantshafsbandalagsins í ljósi breyttra aðstæðna. Flokkurinn hefur ætíð verið andsnúinn aðild Íslands að bandalaginu en í nýlegri skoðanakönnun sagðist helmingur kjósenda hans vera hlynntur NATO-aðildinni. „Áhugi fólks og afstaða sveiflast með tíðaranda,“ sagði Bjarni. „Núna erum við bara í köldu mati að vinna að sameiginlegum efnum sem þarf að vinna sameiginlega að. Með kalt höfuð tekur fólk umræðuna. Þetta er stefna Vinstri grænna og hefur verið.“